Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Drónar og persónuvernd

Vinnsla persónuupplýsinga við notkun dróna

Við notkun fjarstýrðra dróna eða annarra ómannaðra loftfara sem eru með myndavélabúnaði og er fjarstýrt eða flogið með notkun fjarstýribúnaðar, getur átt sér stað vinnsla persónuupplýsinga.

Dæmi:

Dróna er flogið yfir Kringlumýrabrautina á háannatíma. Myndefni sem verður til með notkun drónans sýnir meðal annars bílnúmer fjölda bíla.

Bílnúmer teljast til persónuupplýsinga því þau er hægt að rekja til einstaklinga.

Við slíkar aðstæður á sér stað vinnsla persónuupplýsinga og þá þarf að fylgja persónuverndarlögum.

Hverju þarf að huga að þegar myndefni er tekið upp með dróna?

Huga þarf að persónuvernd og friðhelgi einkalífs þegar myndefni er tekið upp með dróna á almannafæri.

Hér eru útlistuð þau atriði sem þarf að hafa í huga við slíkar aðstæður:

  • Æskilegt er að afla samþykkis einstaklinga sem koma fyrir á myndefni sem verður til við notkun dróna, sérstaklega ef andlit einstaklinga eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar koma fyrir á myndefninu.

  • Taka þarf tillit til þess umhverfis sem myndefnið er tekið upp í. Ef taka á myndir á almannafæri eða þar sem einstaklingar telja sig eiga að njóta friðhelgi einkalífs ber að taka tillit til þess.

  • Óheimilt er að birta opinberlega upptökur sem innihalda persónuupplýsingar, sem dæmi á samfélagsmiðlum, nema skilyrði persónuverndarlaganna fyrir slíkri birtingu séu uppfyllt.

  • Um heimildir til flugs í grennd við íbúðarhúsnæði eða annars staðar þar sem fólk dvelst og á athafna­svæðum gilda almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuverndar.

  • Einstaklingar sem sjást á upptöku (þeir sjálfir eða til dæmis bílnúmer þeirra), eiga almennt rétt til aðgangs að persónuupplýsingum um þá sjálfa og til að skoða upptökur sem til verða og fá af þeim afrit innan mánaðar, óski þeir eftir því. Hugsanlega þarf að afmá upplýsingar um aðra einstaklinga af upptökunni áður en orðið er við slíkri beiðni.

  • Gæta þarf öryggis upplýsinga sem koma fram á upptökum. Sem dæmi getur skipt máli í hvaða landi þær eru vistaðar, þar sem uppfylla þarf sérstök skilyrði ef persónuupplýsingar eru fluttar út fyrir EES-svæðið, til dæmis í skýjalausnum.

Myndataka til einkanota

Ef myndatakan er einungis til einkanota, fellur hún almennt ekki undir persónuverndarlöggjöfina.

Um leið og efni er birt opinberlega á samfélagsmiðlum eða á netinu, er almenna reglan sú að upptakan telst ekki lengur til einkanota og þá þarf að huga að framangreindum atriðum.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820