Fara beint í efnið

Afpöntun og skilaréttur á vörum

Neytandi getur afpantað vöru og þjónustu áður en hún er afhent eða innt af hendi. Hafi vara verið afhent á neytandi engan almennan skilarétt, nema við fjarsölu.

Afpöntun

Neytanda er heimilt að afpanta:

  • vöru áður en hún er afhent kaupanda,

  • þjónustu sem hann hefur óskað eftir og

  • frekari vinnu þótt verk sé hafið.

Afpanti neytandi getur seljandi ekki krafist greiðslu, nema fyrir þá þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi, svo og fyrir þá vinnu sem nauðsynlegt er að ljúka þrátt fyrir afpöntun.

Seljandinn getur krafist skaðabóta vegna tjóns sem hann verður fyrir vegna afpöntunar. Seljandinn skal sanna tjón sitt, nema fyrirfram sé samið um skaðabætur komi til afpöntunar, og ber að takmarka tjónið.

Skaðabætur ber að ákveða meðal annars með tilliti til heildarverðs fyrir þjónustuna. Greiðsluskylda neytanda getur ekki orðið meiri en sem nemur heildarverði þess verks sem samið hefur verið um.

Skilaréttur

Meginreglan er sú að kaup eru bindandi samningur milli seljanda og kaupanda, nema samið hafi verið um skilarétt, til dæmis ef hluturinn er keyptur til reynslu.

Skilaréttur er þannig ekki almennt fyrir hendi, nema við fjarsölu (húsgöngusala, farandsala, símasala, vörulistar og netsala). Margar verslanir veita þó neytendum rétt til að skila vörum samkvæmt skilyrðum sem um er samið. Nánar um skilarétt

Sé vara gölluð gilda sérstakar reglur.

Skilaréttur við fjarsölu

Við húsgöngu- og fjarsölu á Íslandi hefur neytandi 14 daga frá kaupum til að hætta við kaupin án skýringa og fá vöruna endurgreidda. Neytandanum ber að skila vörunni óskemmdri til seljandans.

Kaupi neytandi vöru af seljanda í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, til dæmis í gegnum Netið, á hann ávallt rétt á að falla frá kaupunum innan 7 virkra daga frá því að hann fær vöruna afhenta og í sumum löndum er fresturinn lengri.

Ef ágreiningur rís um viðskipti neytenda í öðrum löndum Evrópu er hægt að leita aðstoðar hjá Evrópsku neytendaaðstoðinni sem er á vegum Neytendasamtakanna.

Athugið að réttur til að falla frá samningi gildir ekki ef vara eða þjónusta hefur verið sérsniðin að kröfum neytandans eða innsigli hafa verið rofin.

Hafi neytandi fallið frá kaupum er seljanda skylt að endurgreiða honum allar þær greiðslur sem hann kann þegar að hafa innt af hendi. Endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er og ekki síðar en eftir 30 daga.

Verklagsreglur um skilarétt

Gefnar hafa verið út leiðbeinandi verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

Meginatriði þeirra eru:

  • Ef vara er merkt með gjafamerki er kassakvittun óþörf við skil.

  • Neytandi á annaðhvort að fá endurgreiðslu eða inneignarnótu fyrir vöru sem skilað er.

  • Inneignarnótur eiga að miðast við það verð sem varan var seld á. Ef vöru er skilað eftir að útsala er hafin er endurgreiðsla miðuð við útsöluverð vörunnar.

  • Inneignarnótur gilda í fjögur ár frá útgáfudegi nema annað sé tekið fram á nótunni, þó aldrei skemur en í eitt ár. Ef inneignarnóta er gefin út innan 14 daga fyrir upphaf útsölu er ekki hægt að nota hana á útsölunni nema með samþykki seljanda.

  • Inneignarnótur halda gildi sínu gagnvart þeim sem seljandi kann að framselja verslunarrekstur sinn til.

Sumar verslanir ganga lengra en verklagsreglurnar gera ráð fyrir, til dæmis með því að endurgreiða vörur í stað þess að gefa inneignarnótur eða veita lengri skilafrest.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Neyt­enda­stofa