Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Áskoranir hins opinbera

Gervigreindarlausnir á sviði lögfræði

Prófanamiðuð markaðskönnun með opinberum notendum

Fjársýslan og Umbra, fyrir hönd Stjórnarráðsins, óska eftir þátttöku fyrirtækja í prófanamiðaðri markaðskönnun gervigreindarlausna á sviði lögfræði. Tilgangurinn er að greina hvernig slíkar gervigreindarlausnir geta aukið hraða, nákvæmni og gæði í störfum lögfræðinga og hvernig þær geta skapað raunverulegt virði í starfsemi hins opinbera. Að prófunum loknum verður tekin ákvörðun um útfærslu og umfang opinberra innkaupa á nýsköpun út frá niðurstöðum markaðskönnunarinnar.

Markmið

Verkefnið snýst um að skapa öruggt og afmarkað prófanaumhverfi með raunverulegum notendum þar sem nýsköpunarfyrirtæki geta sýnt fram á ávinning lausna sinna sem jafnframt öðlast tækifæri til að samræma virkni lausnanna við öryggis- og persónuverndarviðmið hins opinbera. Niðurstöður markaðskönnunarinnar nýtast við mótun tæknilýsinga og við samningsgerð vegna fyrirhugaðra sameiginlegra opinberra innkaupa á nýsköpun.

Nánar tiltekið er markmið verkefnisins að:

  • Greina eftirspurn fyrir gervigreindarlausnir á sviði lögfræði innan hins opinbera

  • Sannreyna hvernig notkun slíkra lausna getur skapað virðisauka í fyrir stofnanir og opinbert starfsfólk

  • Gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að vinna í nánu samstarfi með hinu opinbera við að sýna fram á ávinning lausna sinna

  • Skapa aðstæður fyrir markaðssetningu á nýsköpun með eftirspurn og kaupmætti hins opinbera

Fyrirkomulag

Samráðshópur Stjórnarráðsins um verkefnið er skipaður lykilfulltrúum ráðuneytanna sem verða í forsvari fyrir notendahópa hvers ráðuneytis fyrir sig. Prófanir fara fram í áfangaskiptu ferli þar sem lausnir þurfa að ná fyrir fram skilgreindum árangursviðmiðum til að halda áfram þátttöku í ferlinu. Stuðst verður við árangursmælingar í formi endurgjafar notenda undir lok hvers áfanga.

Fjársýslan tekur við allri neikvæðri endurgjöf notenda og metur hvort forsendur séu fyrir því að notandinn skipti um lausn í næsta áfanga eða hvort notandinn geti haldið áfram prófunum með sömu lausn. Framkvæmd prófana og úrvinnsla neikvæðrar endurgjafar mun byggja á opnu og þarfamiðuðu samtali milli notenda og fyrirtækja.

Á þessu stigi er sérstaklega horft til lausna sem einfaldar eru í innleiðingu og hægt er að prófa án mikils tilkostnaðar eða umfangsmikilla samþættingar.

Áfangi 1

Gangsetning og þjálfun (mánuður 1)

  • Notendum úthlutað á þátttakandi fyrirtæki með gagnsæjum hætti

  • Fyrirtæki veita notendum þjálfun í notkun lausna

  • Fjársýslan safnar endurgjöf frá notendum og fyrirtækjum

Áfangi 2

Virkni og endurgjöf (mánuður 2)

  • Fyrirtæki kynna tekjulíkan sinna lausna fyrir notendum

  • Notendur veita fyrirtækjum endurgjöf um notendaupplifun og verðlagningu lausnarinnar

  • Fjársýslan safnar upplýsingum um tekjulíkan og endurgjöf um áhrif lausna á störf notenda

Áfangi 3

Stöðlun og skölun (mánuður 3)

  • Lausnir keyrðar í daglegu rekstrarumhverfi stofnana

  • Fyrirtækjum heimilt að innheimta afnotagjöld í samræmi við kynnt tekjulíkan

  • Fjársýslan safnar gögnum um notkun, verðlagningu og endurgjöf

Niðurstöður markaðskönnunarinnar verða nýttar við að meta vænt umfang langtímasamninga og greina æskilegt form innkaupa m.t.t. laga um opinber innkaup. Endurgjöf er jafnframt nýtt til að kortleggja þarfir ólíkra notendahópa og auðvelda fyrirtækjum að móta sérstöðu sína út frá sannreyndri þarfagreiningu. Að prófunum loknum mun Fjársýslan greina forsendur ólíkra innkaupaleiða hins opinbera fyrir gervigreindarlausnir á sviði lögfræði sem kaupendur geta stuðst við í ákvörðunartöku um innkaup í kjölfar markaðskönnunar.

Skuldbindingar

Þátttakandi lausnir verða að uppfylla viðmið stjórnvalda um net- og gagnaöryggi og standast mat á persónuvernd. Upplýsingar um viðmið stjórnvalda í þessum efnum má finna á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og á vef Persónuverndar.

Þátttakandi opinberir aðilar lýsa yfir vilja til innkaupa á nýskapandi lausnum sem sýna fram á áreiðanlegan og mælanlegan ávinning á störf notenda í prófanaferlinu með fyrirvara um fjármögnun innkaupanna.

Gert er ráð fyrir að eftirspurn ólíkra notendahópa hins opinbera fyrir gervigreindarlausnir á sviði lögfræði kalli eftir fjölbreyttu lausnaframboði. Því er ekki er stefnt að innkaupum á einni lausn umfram aðrar að prófunum loknum. Endanleg útfærsla og framkvæmd innkaupa er því óljós þar til niðurstöður verkefnisins liggja fyrir.

Þátttaka

Skráningu fyrir verkefnið lauk 4. nóvember.

Smellið hér til að bóka samtal við Fjársýsluna ef spurningar vakna um verkefnið