Tilkynning til launagreiðendaskrár og/eða virðisaukaskattsskrár
Skráning á virðisaukaskattsskrá
Tilkynna skal virðisaukaskattsskyldan atvinnurekstur til ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst. Tilkynnt er um starfsemina með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins.
Tilkynning um starfsemi - Umsókn um VSK-númer
Ríkisskattstjóri úthlutar virðisaukaskattsnúmeri (VSK-númeri) og sendir staðfestingu skráningar.
Athugið að aðili sem skráir sig á virðisaukaskattsskrá ber að jafnaði einnig að skrá sig á launagreiðendaskrá.
Innskráning á þjónustuvef er gerð með rafrænum skilríkjum hjá einstaklingum eða prókúruhafa félags. Einnig er hægt að nota veflykil til innskráningar.
Skráning á launagreiðendaskrá
Tilkynna ber upphaf atvinnurekstrar til launagreiðendaskrár að minnsta kosti 8 dögum áður en starfsemi hefst. Launagreiðendum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum þeirra sem þeir greiða laun og af eigin reiknuðu launum (reiknað endurgjald).
Sjálfstætt starfandi einstaklingar
Einstaklingar með rekstur á eigin kennitölu reikna sér laun eftir sérstökum reglum um reiknað endurgjald og skila staðgreiðslu af því. Vinni maki og/eða börn við reksturinn þar einnig að reikna þeim endurgjald og draga staðgreiðslu af á sama hátt og staðgreiðslu launamanna. Áætlað reiknað endurgjald á mánuði er tilkynnt til launagreiðendaskrár við skráningu.
Ef umfang rekstrarins er svo óverulegt að reiknaða endurgjaldið er lægra en 450.000 kr. á ári þarf ekki að skila staðgreiðslu. Þessi laun eru aðeins talin fram á skattframtali og launaframtali. Tekjuskattur og útsvar leggjast á við álagningu sem og tryggingagjald.
Séu launagreiðslur og reiknað endurgjald samanlagt ekki umfram 504.000 kr. á ári er staðgreiðslu og tryggingagjaldi aðeins skilað einu sinni á ári. Sjá nánar um greiðslutímabil á síðunni Tryggingagjald.

Þjónustuaðili
Skatturinn