Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.–25.8.2025

2

Í vinnslu

  • 26.8.–15.9.2025

3

Samráði lokið

  • 16.9.2025

Mál nr. S-145/2025

Birt: 11.8.2025

Fjöldi umsagna: 0

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Hlutfall stöðugrar fjármögnunar banka

Niðurstöður

Engin umsögn barst. Drög að frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir því að reglugerðin verði lögfest voru birt í samráðsgáttinni 16. september 2025 (mál nr. S-171/2025).

Málsefni

Áformað er að innleiða reglugerð (ESB) 2025/1215 sem lækkar kröfur til banka um hlutfall stöðugrar fjármögnunar vegna fjármögnunarviðskipta með verðbréf.

Nánari upplýsingar

Í reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir („CRR“), sem gildir sem lög hér á landi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eru ýmsar reglur sem er ætlað að auka viðnámsþrótt lánastofnana og treysta fjármálastöðugleika. Meðal þeirra er krafa um hlutfall stöðugrar fjármögnunar (e. net stable funding ratio). Henni er ætlað að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda lánastofnana með því að setja skorður við möguleika þeirra á að fjármagna langtímaeignir, svo sem veitt fasteignalán, með óstöðugri skammtímafjármögnun, á borð við skammtímalán frá öðrum lánastofnunum. Slíkt misræmi gæti skapað vandkvæði ef að aðgangur lánastofnana að skammtímafjármögnun takmarkaðist óvænt, svo sem í fjármálakreppu. Lánastofnanir gætu þá staðið frammi fyrir því að hafa ónægt laust fé til að standa í skilum á skuldbindingum sínum, jafnvel þótt að eiginfjárstaða þeirra væri jákvæð.

Hversu mikil krafan um hlutfall stöðugrar fjármögnunar er tekur mið af því hversu miklar eignir lánastofnunar eru og hversu erfitt er að innheimta þær eða koma þeim í verð á skömmum tíma án verulegra affalla. Einstakir eignaflokkar fá vægistuðul frá 0 til 100% eftir því hversu erfitt það er. Meðal eigna sem fá lágan stuðul eru kröfur í tengslum við svonefnd fjármögnunarviðskipti með verðbréf (e. securities financing transactions), svo sem endurhverf viðskipti með verðbréf og lán á verðbréfum, en um slík viðskipti gilda lög um fjármögnunarviðskipti með verðbréf, nr. 41/2023. Samkvæmt CRR gat vægistuðull slíkra krafna verið 0%, 5% eða 10%, sbr. g-lið 1. mgr. 428. gr. r, b-lið 1. mgr. 428. gr. s og a-lið 428. gr. v reglugerðarinnar. Þessir stuðlar hækkuðu í 10% og 15% 28. júní 2025 til samræmis við 8. mgr. 510. gr. reglugerðarinnar. Það hafði í för með sér aukna kröfu um stöðuga fjármögnun þeirra lánastofnana sem áttu slíkar kröfur.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti 17. júní 2025 reglugerð (ESB) 2025/1215 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem felldi brott 8. mgr. 510. gr. reglugerðarinnar. Það fól í sér að stuðlarnir hækkuðu ekki 28. júní 2025 í Evrópusambandinu. Því var ætlað að stuðla að samkeppnishæfni evrópskra lánastofnana gagnvart lánastofnunum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem sæta ekki sömu kröfum, og styðja við skilvirkni og dýpt markaða fyrir fjármögnunarviðskipti með verðbréf.

Evrópusambandið samþykkti gerðina svo skömmu fyrir 28. júní 2025 að ekki var unnt að taka hana upp í EES-samninginn fyrir þann dag. Unnið er að því að taka gerðina sem fyrst upp í samninginn. Íslandi mun bera þjóðréttarleg skylda til að leiða hana í landsrétt þegar og ef hún verður tekin upp í samninginn. Innleiðingin verður til þess að vægistuðlarnir munu á ný færast í það horf sem þeir voru í fyrir 28. júní 2025.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (22)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaðar

gunnlaugur.helgason@fjr.is