Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.6.–7.7.2025

2

Í vinnslu

  • 8.7.–10.8.2025

3

Samráði lokið

  • 11.8.2025

Mál nr. S-102/2025

Birt: 11.6.2025

Fjöldi umsagna: 2

Drög að reglugerð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að breytingu á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs nr. 609/1996

Niðurstöður

Umsagnir innihéldur gagnlegar ábendingar sem verða teknar til skoðunar í ráðuneytinu en þær leiddu ekki til breytinga á efni reglugerðarinnar.

Málsefni

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir drög til breytinga á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs nr. 609/1996

Nánari upplýsingar

Reglugerðinni er einkum ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang og 5. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Jafnframt eru innleiddar með tilvísun tilteknar framkvæmdarákvarðanir Framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. ákvörðun frá 22. mars 2005 þar sem mælt er fyrir um eyðublöð fyrir gagnagrunnskerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang (2005/270/EB) og ákvörðun (ESB) 2019/665 frá 17. apríl 2019 um breytingu á ákvörðun 2005/270/EB þar sem mælt er fyrir um eyðublöð fyrir gagnagrunnskerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang.

Meðal helstu breytinga eru þær að kveðið er á um skyldu til lágmarkshlutfalls endurunnins plasts í einnota plastflöskum fyrir drykkjarvörur eða 25% frá 1. janúar 2026 og 30% frá 1. janúar 2030. Jafnframt eru sett söfnunarmarkmið fyrir einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem eru 77% að lágmarki fyrir lok árs 2025 en 90% fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir. Fyrir lok árs 2029 skal hlutfallið hafa náð 90% í báðum tilvikum. Hér á landi hefur verið skilakerfi á drykkjarumbúðum í 35 ár sem hefur skilað framúrskarandi árangri á heimsvísu. Til að tryggja sem mesta söfnun á þessum umbúðum er lagt á þær skilagjald sem endurgreitt er neytendum við skil. Söfnunarhlutfall einnota drykkjarumbúða úr plasti, sem eru í skilakerfinu, hefur verið um 90% síðustu ár. Stjórnvöld vilja halda áfram á sömu vegferð en ekki setja lægri kröfur fyrir þær umbúðir sem bera skilagjald en árangurinn hingað til gefur tilefni til. Af þeim sökum er lagt til að markmiðin verði mismunandi eftir því hvort plastflöskurnar beri skilagjald eða ekki.

Einnig er kveðið á um ný endurvinnslumarkmið fyrir umbúðaúrgang. Markmiðunum er skipt í lágmarksárangur fyrir umbúðaúrgang í heild en einnig eru sett sértæk markmið fyrir ólíkar úrgangstegundir, þ.e. plast, við, járnríka málma, ál, gler og pappír og pappa. Eigi síðar en 31. desember 2025 skulu að lágmarki 65% alls umbúðaúrgangs, miðað við þyngd, endurunnin en jafnframt er kveðið á um að fyrir þann tíma skuli ná eftirfarandi lágmarksviðmiðum, miðað við þyngd, um endurvinnslu á eftirtöldum efnum í umbúðaúrgangi: 50% af plasti, 25% af viði, 70% af járnríkum málmum, 50% af áli, 70% af gleri, og 75% af pappír og pappa,

Kveðið er á um að eigi síðar en 31. desember 2030 skuli að lágmarki 70% alls umbúðaúrgangs, miðað við þyngd, endurunnin og fyrir þann tíma skuli ná eftirfarandi lágmarksviðmiðum, miðað við þyngd, um endurvinnslu á eftirtöldum efnum í umbúðaúrgangi: 55% af plasti, 30% af viði, 80% af járnríkum málmum, 60% af áli, 75% af gleri og 85% af pappír og pappa.

Aðrar breytingar felast í nýju markmiðsákvæði, uppfærslu skilgreininga og viðauka I og III ásamt því að felld er á brott bann við notkun annarra auðkenningarkerfa fyrir umbúðir en tilgreindar eru í viðauka II. Er það gert til að tryggja að ákvæði reglugerðarinnar séu ekki of takmarkandi m.a. hvað varðar notkun flokkunarmerkinga fyrir neytendur.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (9)

Umsjónaraðili

Skrifstofa umhverfis og orku

trausti.hermannsson@urn.is