Til umsagnar
14.5.–23.6.2025
Í vinnslu
24.6.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-88/2025
Birt: 13.5.2025
Fjöldi umsagna: 19
Áform um lagasetningu
Innviðaráðuneytið
Sveitarfélög og byggðamál
Breytingarnar snúa m.a. að almennum umbótum, reglum um fjármál sveitarfélaga og atvinnuþátttöku þeirra, eftirliti með sveitarfélögum, samvinnu sveitarfélaga o.fl.
Innviðaráðherra áformar að leggja fram á haustþingi frumvarp um endurskoðun á sveitarstjórnarlögum.
Miklu varðar að sveitarstjórnarstigið búi við skýrt og skilvirkt starfsumhverfi þar sem tekið er tillit til þarfa sveitarstjórna til að sinna staðbundnum hagsmunum og þjónustu við íbúa. Á síðustu árum hefur sveitarfélögum fækkað, þau hafa eflst og tekið að sér umfangsmeiri þjónustu við íbúa en áður var, bæði samkvæmt lagaboði og að eigin frumkvæði. Þessi þróun leiðir óhjákvæmilega til þess að ákvarðanir, stefnumótun og fjármál einstakra sveitarfélaga skipta sífellt meira máli fyrir samfélagið í heild. Því er jafnvel mikilvægara nú en áður var að þær almennu reglur sem gilda um stjórn og starfsemi sveitarfélaga tryggi, eftir því sem unnt er, ábyrgð við framkvæmd sveitarstjórnarmála með almannahagsmuni til lengri tíma í huga.
Markmið breytinga á sveitarstjórnarlögum er m.a. að tryggja að sveitarstjórnarlögin fylgi framþróun sveitarstjórnarstigsins og að þau séu skýr og aðgengileg. Þá er einnig markmið með breytingunum að auka sjálfbærni sveitarfélaga. Breytingarnar snúa m.a. að almennum umbótum á I.-VI. kafla sveitarstjórnarlaga, reglum um fjármál sveitarfélaga og atvinnuþátttöku þeirra, eftirliti með sveitarfélögum, reglum um samvinnu, sjálfbærni sveitarfélag og getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og fleira. Sjá umfjöllun um helstu atriði sem til endurskoðunar eru í kynningu sem birt er hér í samráðsgáttinni sem fylgiskjal með áformunum.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa sveitarfélaga, stafrænna innviða og byggðamála
irn@irn.is