Til umsagnar
28.9.–4.11.2022
Í vinnslu
5.11.2022–
Samráði lokið
Mál nr. S-180/2022
Birt: 28.9.2022
Fjöldi umsagna: 18
Stöðumat og valkostir
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Umhverfismál
ATH! Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur til og með 4 nóvember nk. Kynnt er til umsagnar og athugasemda grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.
Fyrri hluta árs 2020 var skipaður stýrihópur með fulltrúum fjögurra ráðuneyta auk tveggja fulltrúa ráðherra. Stýrihópnum var falið það hlutverk að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.
Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, kemur fram að ljúka eigi við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Nú liggja fyrir drög að svokallaðri grænbók um líffræðilega fjölbreytni, en grænbók er greining á tilteknu viðfangsefni sem stjórnvöld hafa ákveðið að skoða nánar, ýmist sem undanfari stefnumótunar og/eða frumvarpsgerðar.
Grænbókin inniheldur upplýsingar um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni íslenskra vistkerfa. Hún felur í sér upplýsingar um stöðu og þróun málefna og gefur gott yfirlit yfir lykilviðfangsefnin framundan og helstu leiðir eða áherslur við úrlausn þeirra. Að loknu samráði verða niðurstöður dregnar saman og mótuð hvítbók sem eru drög að stefnu. Hvítbókin mun einnig fara í opið samráð og að því loknu er mótuð stefna sem inniheldur framtíðarsýn fyrir málefnið og markmið sem marka leiðina ásamt áherslum. Gert er ráð fyrir að stefnunni muni fylgja aðgerðaráætlun.
Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera s.s. bakteríur og veirur sem finnast á jörðinni, þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera, vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu þeirra. Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum og hverfi um aldur og ævi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa landgæða
urn@urn.is