Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Austurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Austurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Hvatt til bólusetninga vegna mislingasmits

6. febrúar 2024

Mislingasmit kom upp hér á landi nýverið. Ef þú telur að þú eða börnin þín séu með mislinga getur þú hringt í síma 1700 eða haft samband í gegnum netspjall Heilsuveru og við ráðleggjum þér með næstu skref. Athugið að ef grunur er um smit á ekki að koma á heilsugæslustöð eða sjúkrahús vegna hættu á hópsmiti. Heilsugæslan hvetur foreldra til að tryggja að börn séu bólusett við mislingum ef einhverjar spurningar vakna hringið þá í 1700 eða þína heilsugæslustöð.

Heilbrigðisstofnun Austurlands mekri með texta

Börn 0-6 mánaða

  • Börn 0-6 mánaða eru ekki bólusett.

  • Ef upp kemur hópsýking eru foreldrar hvattir til að halda börnum á þessum aldri frá margmenni.

Börn 6-18 mánaða

  • Börn 6-18 mánaða geta aðeins fengið bólusetningu ef talin er hætta á að þau smitist eða hafi smitast.

  • Bólusetning innan þriggja sólarhringa frá smiti minnkar líkur á veikindum.

  • Ef upp kemur smit fer smitrakning í gang. Haft verður samband við foreldra með skilaboðum á Mínum síðum
    á Heilsuveru eða SMS.

  • Ef foreldrar fá ekki skilaboð er ekki boðið upp á bólusetningu fyrir börn á þessum aldri.

  • Bólusetning sem gerð er fyrir 12 mánaða aldur veitir ekki langtímavörn og þarf þá að endurtaka bólusetninguna við 18 mánaða aldur og svo aftur við 12 ára aldur.

Börn 18 mánaða og eldri

  • Foreldrar barna 18 mánaða og eldri sem ekki hafa verið bólusett eru hvattir til að þiggja bólusetningu fyrir börn sín sem fyrst.

  • Best er að hafa samband við sína heilsugæslustöð og fá tíma í bólusetningu.

  • Ef foreldrar eru ekki vissir hvort barn er bólusett má finna upplýsingar um það á Mínum síðum á Heilsuveru. Einnig er hægt að hafa samband við heilsugæsluna á netfangið bolusetning@hsa.is , í síma 1700 eða í gegnum netspjall Heilsuveru og fá upplýsingar um bólusetningu barna.

Fullorðnir einstaklingar

  • Ekki á að bólusetja fólk sem er fætt fyrir 1970 þar sem miklar líkur eru á að þeir hafi fengið mislinga.

  • Ef upp kemur smit í nánasta umhverfi fullorðinna sem fæddir eru 1970 eða síðar mun smitrakningarteymi hafa samband og bjóða viðkomandi bólusetningu.

Einkenni mislinga
Mislingar eru bráðsmitandi veirusjúkdómur, allt að 90 prósent útsettra smitast. Smit verður helst með úða frá öndunarfærum, til dæmis við hósta eða hnerra. Ólíkt inflúensu og kvefveirum getur mislingaveiran legið í loftinu og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið.
Einkenni mislingasmits eru oftast lík flensueinkennum í byrjun og koma fram 1-3 vikum eftir smit.

  • Bólgnir eitlar

  • Hiti

  • Nefrennsli

  • Hósti

  • Höfuðverkur

  • Sviði í augum, roði og/eða vot augu

  • Útbrot sem ná yfir allan líkamann koma fram á þriðja eða fjórða degi

  • Útbrot í slímhúðum í munni eru mjög einkennandi en eru helst sýnileg fyrsta daginn sem útbrot koma fram

  • Ung börn fá oft niðurgang með hita áður en útbrotin koma fram

    Upplýsingar um mislinga má finna á fræðsluvef Heilsuveru.