Að missa ökuréttindi
Almennar reglur um sviptingu ökuréttar
Hægt er að svipta mann rétti til að stjórna ökurétti sem ökuskírteini þarf til ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan aksturs slíks ökutækis eða ef telja verður, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns ökutækis, varhugavert að hann stjórni vélknúnu ökutæki.
Hafi maður á þriggja ára tímabili gerst sekur um þrjú eða fleiri brot á umferðarlögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim og náð tilteknum punktafjölda samkvæmt punktakerfi umferðarlagabrot, þá skal hann sviptur ökurétti í þrjá mánuði til viðbóta þeirri sviptingu ökruéttar sem við síðasta brotinu kann að liggja.
Svipting ökuréttar skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en einn mánuð, eða ævilangt ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað öðru sinni.
Svipting ökuréttar felur í sér sviptingu ákveðins réttar samkvæmt ökuskírteini og réttar til að öðlast ökuskírteini.
Svipting ökuréttar vegna ítrekaðra brota gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna
Nú hefur ökumaður tvívegis áður sætt sekt vegna brota á ákvæðum X. kafla um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, og er þá heimilt að svipta hann tímabundið rétti til að stjórna bifreið í tilteknum flokki til farþega- og farmflutninga í atvinnuskyni í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
Svipting ökuréttar vegna ölvunar- eða vímuefnaaksturs
Svipta skal ökumann ökurétti ef hann hefur ekið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða ef hann hefur neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls.
Ökumaður skal ekki sviptur ökurétti ef:
hann hefur meðferðis við stjórn ökutækis vottorð læknis sem sýnir fram á að hann sé haldinn tilteknum sjúkdómi eða ástandi og þurfi af þeim sökum að neyta þeirra efna sem í blóði hans mælast, og
hann sýnist fram á að hann hafi fengið útgefið lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands vegna neyslu þeirra efna sem í blóði hans mælast, og
sýnt er fram á, með mati læknis að undangenginni læknisskoðun sem fram fer að beiðni lögreglu í framhaldi af stöðvun ökutækis, að hann hafi verið hæfur til að stjórna ökutækinu örugglega
Tekið skal fram í vottorði læknis skv. a. lið að sjúklingurinn sé þrátt fyrir sjúkdóm sinn og lyfjainntöku fullkomlega fær um að stjórna ökutæki.
Bráðabirgðasvipting ökuréttar
Nú telur lögreglustjóri skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi, og skal þá svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða svo fljótt sem unnt er. Sviptingartími samkvæmt bráðabirgðasviptingu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma.
Svipting á rétti til þess að öðlast ökuskírteini
Svipta skal þann sem ekið hefur ökutæki án þess að hafa fengið til þess réttindi réttinum til að öðlast ökuskírteini í fjóra mánuði.
Framlengja skal sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini um fjóra mánuði fyrir hvert skipti sem ekið er án ökuréttinda.
Akstursbann
Lögreglustjóri skal banna byrjanda með bráðabirgðaskírteini að aka hafi hann fengið tiltekinn fjölda punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota áður en bráðabirgðaskírteinið er endurnýjað í fullnaðarskírteini.
Akstursbanni skal eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinis.
Þegar skilyrði fyrir akstursbanni eru fyrir hendi skal svo fljótt sem unnt er banna byrjaða að aka.
Með akstursbanni eru afturkölluð þau ökuréttindi sem bráðabirgðaskírteinið veitir og nýtur byrjaði þá sömu stöðu og sá sem ekki hefur lokið ökunámi.
Akstursbannið gildir þar til byrjandinn hefur sótt sérstakt námskeið vegna akstursbanns og staðist ökupróf að nýju.
Afturköllun ökuréttinda af heilsufarsástæðum
Lögreglan getur afturkallað ökuréttindi ef ökumaður er ekki lengur líkamlega eða andlega hæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Ákvörðun um afturköllun skal byggð á læknisfræðilegu mati á aksturshæfni. Þegar afskipti eru höfð af ökumanni við umferðareftirlit sem lögregla hefur sérstaka ástæðu til að ætla að uppfylli ekki skilyrði um heilbrigði til að stjórna ökutæki er lögreglu heimilt að afturkalla ökuréttindin tafarlaust til bráðabirgða í þrjá mánuði. Ökuréttindin verða ekki gild að nýju fyrr en ökumaður hefur undirgengist læknisfræðilegt mat á aksturshæfni.
Útgáfa ökuskírteinis eftir afturköllun ökuréttinda eða sviptingu ökuréttar
Sýslumenn annast útgáfu ökuskírteina.
Útgáfa ökuskírteinis eftir sviptingu - Bráðabirgðaskírteini
Handhafi bráðabirgðaskírteinis þarf að ljúka sérstöku námskeið og standast bóklegt og verklegt próf til að fá ökuskírteini afhent að lokinni sviptingu ökuréttar. Læknisvottorð skal fylgja umsókn þegar sviptingartíminn er lengri en eitt ár.
Útgáfa ökuskírteinis eftir sviptingu -Fullnaðarskírteini
Eftir sviptingu ökuréttar í skemmri tíma en eitt ár má sækja ökuskírteinið til sýslumanns að sviptingartímanum liðnum.
Þegar ökumaður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en eitt ár þarf hann að fara á sérstakt námskeið (á við um sviptingu eftir 1. janúar 2020 ) og þreyta bóklegt verklegt próf áður en ökuskírteini er gefið út. Heimilt er að sækja um ökuskírteinið allt að einum mánuði áður en sviptingartímanum lýkur en skírteinið er þó ekki endurútgefið fyrr en að lokinni sviptingu. Leggja skal fram læknisvottorð með umsókn.
Útgáfa ökuskírteinis eftir afturköllun ökuréttinda af heilsufarsástæðum
Ef ökuréttindi hafa verið afturkölluð af heilsufarsástæðum þarf að sækja um ökuréttindi að nýju hjá sýslumanni. Læknisvottorð skal fylgja umsókn þar sem staðfest er að þær ástæður sem afturköllunin byggðist á séu ekki lengur fyrir hendi og að læknir telji viðkomandi uppfylla skilyrði um heilbrigði. Hafi afturköllun ökuréttinda varað í þrjú ár eða lengur þarf umsækjandi þreyta bóklegt og verklegt próf áður en ökuskírteini er gefið út.
Þjónustuaðili
Lögreglan