Til umsagnar
23.1.–9.2.2026
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-14/2026
Birt: 23.1.2026
Fjöldi umsagna: 1
Drög að frumvarpi til laga
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Samgöngu- og fjarskiptamál
Drög að frumvarpi stofnun sérstaks innviðafélag sem heldur utan um fjármögnun og uppbyggingu tiltekinna samgöngumannvirkja.
Stofnun innviðafélags styður við áherslur stjórnvalda um að rjúfa kyrrstöðu í samgöngumálum. Tilgangur félagsins er að koma á nýju skipulagi fjármögnunar við framkvæmd stórra samgöngumannvirkja.
Talsverður ávinningur er af því fyrir þjóðarbúið að ráðist verði í auknar framkvæmdir á sviði samgangna, m.a. til að auka umferðaröryggi, stytta umferðarleiðir og bæta tengingar milli byggða og atvinnusvæða. Með frumvarpi þessu er verið að fylgja fyrirmynd nágrannalanda sem hafi stofnað sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sjái um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda. Mikilvægt er að umgjörð um fjármögnun, framkvæmd og rekstur umferðarmannvirkja sem falla undir fyrirkomulag af þessu tagi sé skilgreind með fjárhagslega sjálfbærni að leiðarljósi. Í því samhengi þarf að tryggja sjálfstæði slíks félags til ákvörðunartöku sem byggir á viðskiptalegum grunni og faglegu verkefnavali. Að öðrum kosti er hætta á að tilgangur og markmið með stofnun félagsins takist ekki sem leiði til tafa og hærri kostnaðar til lengri tíma og óskýrrar áhættudreifingar.
Áformað er að félagið fái það hlutverk að hrinda í framkvæmd uppbyggingu stórra þjóðhagslega mikilvægra samgönguverkefna og tryggja fjármögnun og hraðari framvindu slíkra framkvæmda. Félagið mun að öðru leyti stuðla að því að ákvarðanir um fjárfestingar í samgönguinnviðum lúti skýrum markmiðum, séu vandlega undirbúnar og standist lög og viðmið sem gilda um opinberar framkvæmdir. Við stofnun félagsins mun allt hlutafé þess vera í eigu ríkissjóðs.
Miðað er við að innviðaráðherra muni með heimild í áformuðum lögum gera samning við félagið, einn eða fleiri eftir þörfum, um uppbyggingu og rekstur samgönguverkefna á grundvelli samgönguáætlunar í samræmi við tilgang og hlutverk félagsins. Í samningi verði tryggt að félagið geti staðið undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd verkefna, stofnkostnað, rekstur, viðhald og fjármagnskostnað með tekjum af veggjöldum eða eftir atvikum beinum fjárframlögum frá ríkinu til að tiltekið verkefni geti talist fjárhagslega sjálfbært.
Með stofnun sérstaks félags er stefnt að því að hægt verði að ráðast í viðmikla uppbyggingu á samgönguinnviðum þannig að það hafi takmörkuð áhrif á skuldir ríkissjóðs í skilningi alþjóðlegra hagskýrslustaðla. Til að slíkt nái fram að ganga þarf að tryggja að félagið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir t.a.m. um gjaldskrá sína og að tekjur af veggjöldum standi undir meirihluta af öllum kostnaði sem fellur til í félaginu. Verði frumvarpið ekki lagt fram er hætt við að kyrrstaða í stærri samgönguframkvæmdum og jarðgangnagerð verði ekki rofin.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta
fjr@fjr.is