Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.1.–1.2.2026

Í vinnslu

Samráði lokið

Mál nr. S-10/2026

Birt: 16.1.2026

Fjöldi umsagna: 5

Drög að stefnu

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Drög að tillögu til þingsályktunar um forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, fyrir árin 2026-2030

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, fyrir árin 2026-2030.

Nánari upplýsingar

Þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi og að kynjajafnrétti mælist mest á meðal þjóða á Íslandi samkvæmt lista Alþjóðaefnahagsráðsins, þá er kynferðislegt og kynbundið ofbeldi enn alvarlegt samfélagsmein sem illa gengur að uppræta. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á forvarnir sem leið til þess að uppræta það mein sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni er. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja ofbeldið og stuðla að menningu virðingar þar sem ofbeldi og áreitni þrífst ekki.

Fyrsta heildstæða áætlunin um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, var samþykkt á Alþingi sumarið 2019. Þá voru í fyrsta sinn settar fram heildstæðar úrbætur sem byggja á forvörnum sem eru samþættar skólastarfi á öllum skólastigum, innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva og í öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Hægt er að nálgast upplýsingar um framgang aðgerða í mælaborði áætlunarinnar á vefsvæði skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála.

Til þess að vinna áfram að þeirri framtíðarsýn að útrýma kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum , tryggja samfellu og markvissan árangur til framtíðar, hafa stjórnvöld ákveðið að leggja fram nýja tillögu til þingsályktunar um forvarnaáætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, fyrir árin 2026-2030.

Við undirbúning og vinnu við gerð draga að nýrri þingsályktun var áhersla lögð á samráð, m.a. með rýnihópum þar sem ungmenni á framhaldsskólaaldri fengu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þar kom fram rík áhersla á að stafrænt umhverfi væri vettvangur þar sem þau upplifðu í auknum mæli áreitni og ofbeldi. Þessi reynsla ungmenna var höfð að leiðarljósi við mótun tillagna í þingsályktun þessari. Þá var þema samráðsvettvangs Jafnréttisráðs um jafnrétti kynjanna, sem haldinn var í Hannesarholti 3. desember 2025, forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi meðal barna og ungmenna. Sérstök áhersla var lögð á stafrænt kynferðisofbeldi og forvarnir og viðbrögð gegn því á fundinum.

Við undirbúning og gerð þingsályktunar nr. 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni var lagst í mikla vinnu við kortlagningu á stöðu og þekkingu á forvarnamálum gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi gegn börnum og ungmennum. Þingsályktunartillaga þessi byggir m.a. á þeirri reynslu sem fengist hefur við framkvæmd aðgerða og ábendingum frá framkvæmdaaðilum þingsályktunar nr. 37/150. Þá hefur verið byggt á þeim hugmyndum sem fram komu í samráðsferli við undirbúning og gerð þingsályktunartillögu þessarar. Mikil áhersla verið lögð á markviss viðbrögð við nýjum áskorunum, einkum á sviði stafræns kynferðisofbeldis og áreitni.

Í áætluninni eru 23 aðgerðir sem falla undir fimm kafla: Almennar aðgerðir - Stafrænt kynferðislegt- og kynbundið ofbeldi og áreitni - Fræðsla - Leiðbeiningar, verkferlar og gátlistar - Eftirfylgni og mat á árangri.

Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum um drög þessi.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (42)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttismála

dmr@dmr.is