Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.1.–2.3.2026

Í vinnslu

Samráði lokið

Mál nr. S-9/2026

Birt: 16.1.2026

Fjöldi umsagna: 0

Drög að stefnu

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Saman gegn sóun - drög að stefnu og aðgerðaáætlun

Málsefni

Drög að nýrri stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, ásamt drögum að aðgerðaáætlun. Stefnan er í samræmi við framtíðarsýn stjórnvalda um öflugt hringrásarhagkerfi á Íslandi.

Nánari upplýsingar

Til kynningar eru drög að nýrri stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir 2026–2037, ásamt drögum að aðgerðaáætlun 2026-2028. Um er að ræða lögbundna stefnu og byggja drögin á tillögu Umhverfis- og orkustofnunar sem lögð var fram eftir umfangsmikinn undirbúning og samráð, m.a. opna fundi víða um landið og gerð stöðumats og valkosta um málefnið (sjá fylgiskjöl). Nýja stefnan mun bera heitið Saman gegn sóun, sama heiti og gildandi stefna um úrgangsforvarnir ber, en sú stefna hefur verið í gildi frá árinu 2016.

Úrgangsforvarnir eru ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og draga úr: i) magni úrgangs, þ.m.t. með endurnotkun vara eða framlengingu á notkunartíma vara, ii) neikvæðum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna vegna úrgangs sem hefur myndast, eða iii) innihaldi skaðlegra efna.

Mikið fellur til af úrgangi hér á landi á ári hverju og nauðsynlegt er að vinna markvisst að því að draga úr magninu. Sem dæmi má nefna að í alþjóðlegum samanburði er magn heimilisúrgangs sem fellur til að meðaltali á hvern íbúa hér á landi mikið. Jafnframt má nefna að blikur eru á lofti varðandi innihald skaðlegra efna í neytendavörum sem fluttar eru til landsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi drögum verða meginmarkmið stefnunnar að draga markvisst úr magni úrgangs, stuðla að nægjusemi og ábyrgri framleiðslu auk þess að draga úr ofneyslu, auka þekkingu á úrgangsforvörnum og hringrásarhagkerfinu, að hringrásarlausnir nái að festa rætur og að draga úr innihaldi skaðlegra efna og neikvæðum áhrifum af úrgangi. Með stefnunni er ætlun stjórnvalda að vinna að þeirri framtíðarsýn að hér á Íslandi verði öflugt hringrásarhagkerfi þar sem verulega hafi dregið úr magni úrgangs, endurvinnsla hafi aukist og úrgangur sé ekki lengur urðaður. Með því hafi sóun minnkað og nýting náttúruauðlinda orðið sjálfbærari, auk þess að styðja við árangur í loftslagsmálum.

Úrgangsforvarnir eiga við um allan úrgang sem myndast en þó eru tilteknir efnisstraumar sem ástæða er talin til að leggja sérstaka áherslu á til að styðja við árangur í úrgangsforvörnum hér á landi á næstu árum. Þeir eru: Matvæli, textíll, byggingar, raftæki, umbúðir og þýðingarmikil hráefni.

Samhliða drögum að nýrri stefnu eru kynnt drög að aðgerðaáætlun vegna úrgangsforvarna fyrir tímabilið 2026–2028. Þar má finna 24 aðgerðir sem stuðla eiga að framkvæmd stefnunnar fyrstu þrjú ár gildistíma hennar. Aðgerðunum er skipt í fimm hluta: 1) aðgerðir sem felast í fjárhagslegum hvötum, 2) aðgerðir tengdar vitundarvakningu og fræðslu, 3) aðgerðir tengdar regluverki og opinberum innkaupum, 4) aðgerðir tengdar leiðbeiningum til fyrirtækja og 5) aðgerðir sem miða að bættum gögnum.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (25)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa umhverfisgæða

urn@urn.is