Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.12.2025–16.1.2026

Í vinnslu

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-258/2025

Birt: 22.12.2025

Fjöldi umsagna: 5

Drög að frumvarpi til laga

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, kostnaður o.fl.) og um breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála (umsjón framkvæmda)

Málsefni

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, kostnaður o.fl.) og um breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála (umsjón framkvæmda).

Nánari upplýsingar

Í því skyni að auka skýrleika laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er lögð til breyting á markmiðsákvæði laganna svo það samræmist betur þeim markmiðum sem lágu að baki upphaflegri lagasetningu, þ.e. að aftra manntjóni og slysum af völdum ofanflóða á heimilum fólks sem og á mennta- og heilbrigðisstofnunum.

Til einföldunar stendur til að afnema lánveitingar úr ofanflóðasjóði til sveitarfélaga en þess í stað hækka kostnaðarhlutfall ofanflóðasjóðs vegna undirbúnings og framkvæmda við varnarvirki sem og vegna kaupa á eignum eða eignarnáms. Þá er kostnaðarhlutfall ofanflóðasjóðs hækkað úr 60% í 99% vegna viðhalds á varnarvirkjum. Eins er lagt til að mat Veðurstofu Íslands þurfi að liggja fyrir ef nota á fé ofanflóðasjóðs til að kaupa upp lóðir eða aðrar fasteignir í þeim tilvikum þegar varnarvirki auka ofanflóðahættu á þeim lóðum og fasteignum.

Lögð er til viðbót við lögin um endurskoðun hættumats hafi forsendur breyst, skerpt er á því að eftirlit með hættu á ofanflóðum á vegum, skipulögðum skíðasvæðum, í ferðaþjónustu og annarri starfsemi sé á ábyrgð viðkomandi rekstraraðila og eins er lögð til lögfesting skiptingar á hættusvæðum í áhættuflokka líkt og kveðið er á um í reglugerð nr. 505/2000. Þá er í frumvarpsdrögunum lagt til að ákvæði laganna verði aðlöguð að breyttu hlutverki almannavarnanefnda.

Lagt er til að sveitarfélögum verði gert óheimilt að selja fasteignir sem keyptar hafa verið með fé ofanflóðasjóðs, nema til flutnings af hættusvæði, og að sama skapi verði óheimilt að skipuleggja íbúðabyggð, frístundabyggð eða svæði fyrir atvinnustarfsemi nema tryggt sé að áhætta fólks m.t.t. ofanflóða verði ásættanleg.

Jafnframt gera frumvarpsdrögin ráð fyrir að óheimilt verði að dvelja í eða á eignum á hættusvæði, sem keyptar hafa verið eða teknar eignarnámi í samræmi við 11. gr. laganna, á tímabilinu 1. nóvember til 30. apríl. Ákvæðinu er ætlað að ná til dvalar í eða á hvers konar eignum en á íbúðarhúsum á umræddum svæðum, sem keypt voru með fé ofanflóðasjóðs en sveitarfélög hafa síðan selt áfram á almennum markaði, hvílir þinglýst kvöð um dvalarbann á ákveðnum tíma ársins. Ákvæðinu er þó ekki ætlað að ná til dvalar sem er nauðsynleg vegna atvinnustarfsemi sem fram fer í eign á hættusvæði og dvölin eykur ekki heildaráhættu á viðkomandi svæði, t.d. með fjölgun starfsmanna eða annas konar aukinni viðveru. Eins er ákvæðinu ekki ætlað að ná til dvalar í eignum í dreifbýli sem ekki hafa verið keyptar upp. Lagt er til að lögreglustjóri fái heimild til að leggja sektir á einstaklinga og beita valdi til að rýma eignir á hættusvæði verði brotið gegn banninu.

Enn fremur er gerð tillaga um breytingu á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, á þá leið að Vegagerðin fái heimild til að taka að sér verkefni fyrir ríki og sveitarfélög sem tengjast vörnum gegn ofanflóðum.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (5)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa loftslags og náttúru

urn@urn.is