Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.12.2025–19.1.2026

Í vinnslu

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-255/2025

Birt: 19.12.2025

Fjöldi umsagna: 0

Drög að frumvarpi til laga

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (vindorka og verndarflokkur)

Málsefni

Drög að frumvarpi til breytingar á lögum 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, að því er varðar vindorku og verndarflokk áætlunarinnar.

Nánari upplýsingar

Í lögum nr. 48/2011, um verndar og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun), er kveðið á um að allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, skuli fá umfjöllun í áætlun þar sem þeim er raðað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Samkvæmt meðfylgjandi frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir að virkjunarhugmyndir í vindorku verði að meginstefnu til metnar með sambærilegum hætti og aðrir orkukostir, en þó með vissum undantekningum vegna sérstöðu vindorkunnar. Er þar m.a. horft til þess að vindorka er ekki staðbundin auðlind í sama skilningi og aðrir orkukostir og að áhrif vindorkumannvirkja á landslag og umhverfi geta verið víðtæk.

Vindorka verði því tekin fyrir í sérstakri grein laganna þar sem sett verði skýr viðmið og sjónarmið fyrir verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar að hafa til hliðsjónar við mat á virkjunarhugmyndum í vindorku. Þannig verði m.a. horft til þess hvort fyrirhuguð virkjunarhugmynd sé á röskuðu svæði, hvaða áhrif hún hafi á nálæg friðlýst svæði, óbyggð víðerni og mikilvæg fuglasvæði, hvort hún efli raforkuöryggi í viðkomandi landshluta, sem og áhrif á atvinnulíf og byggðaþróun.

Í frumvarpsdrögunum er einnig lagt til að þau landsvæði sem talin eru hafa það hátt verndargildi að þau eru flokkuð í verndarflokk áætlunarinnar sæti ítarlegri vernd en gildandi lög gera ráð fyrir. Markmiðið er að tryggja að svæðin verði fyrst og fremst tekin til skoðunar með það að leiðarljósi að friðlýsa þau á grundvelli almennra friðlýsingarflokka.

Með hliðsjón af stærð, umfangi og sýnileika vindorkumannvirkja eru jafnframt lagðar til skýrar landfræðilegar takmarkanir á hagnýtingu vindorku. Þær miða að því að undanskilja allra verðmætustu og viðkvæmustu svæði landsins frá slíkri nýtingu, þar á meðal friðlýst svæði og önnur svæði sem njóta sérstakrar verndar, svæði innan marka friðhelgunar menningarminja, miðhálendi Íslands ásamt fleiri verðmætum svæðum.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð áhersla á að styrkja skipulagsvald sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu vindorkuvera og að endanleg ákvörðun um hvort vindorkumannvirki rísi á tilteknu svæði verði á forræði sveitarstjórna í samræmi við skipulagslög og mat á staðbundnum aðstæðum og áhrifum.

Gert er ráð fyrir að settar verði tilteknar sérreglur um áherslur við mat slíkra virkjunarhugmynda enda eru þær að mörgu leyti frábrugðnar hinum hefðbundnu orkukostum, vatnsorku og jarðvarma. Lagðar eru til takmarkanir á hagnýtingu vindorku á tilteknum mjög viðkvæmum svæðum landsins, byggðar á hlutlægum viðmiðum og að virkjunarkostir í vindorku verði undanþegnir þeirri meginreglu laganna að þeir séu bindandi gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga. Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að því að skerpa á vernd þeirra landsvæða sem falla í verndarflokk áætlunarinnar þannig að byggt verði á þeirri almennu flokkum friðlýstra svæða sem finna má í VIII. kafla l. nr. 60/2013, um náttúruvernd eins og kostur er við friðlýsingu þeirra, í stað þess að svæðin í verndarflokki áætlunarinnar séu einungis friðlýst gagnvart orkuvinnslu. Sú leið komi einungis til greina að fullreynt sé að friðlýsa svæðið með almennum hætti vegna andstöðu landeigenda eða sveitarfélags.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa loftslags og náttúru

urn@urn.is