Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.12.2025–26.1.2026

Í vinnslu

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-252/2025

Birt: 22.12.2025

Fjöldi umsagna: 0

Drög að frumvarpi til laga

Atvinnuvegaráðuneytið

Sjávarútvegur og fiskeldi

Drög að frumvarpi til laga um lagareldi

Málsefni

Atvinnuvegaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um lagareldi.

Nánari upplýsingar

Markmið frumvarpsdraganna er að styrkja lagaramma lagareldis og sporna gegn neikvæðum umhverfisáhrifum með því að innleiða hvata og þannig skapa traustari grundvöll fyrir sjálfbæra verðmætasköpun. Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að ein heildarlög gildi um starfsemi lagareldis (sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og fjarðabeit) og að felld verði úr gildi lög nr. 71/2008 um fiskeldi og lög nr. 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar frá framangreindum lögum sem margar hverjar stafa af ábendingum Ríkisendurskoðunar sem fram komu í stjórnsýsluúttekt embættisins á starfsemi sjókvíaeldis í janúar 2023.

Efni XIV. kafla frumvarpsdraganna lýtur að innheimtu framleiðslugjalds. Umræddur kafli frumvarpsdraganna er enn í vinnslu. Áður en frumvarpið verður lagt fram er fyrirhugað að endurskoða og nánar útfæra gjaldtökufyrirkomulagið með það að markmiði að það endurspegli afkomu fyrirtækjanna sem ber að greiða gjaldið og dragi ekki úr samkeppnishæfni greinarinnar.

1) Sjókvíaeldi

Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins sem snúa að sjókvíaeldi eru eftirfarandi:

• Auknir hvatar til nýtingar lokaðs búnaðar og ófrjós lax

• Vöktun í ám með það að markmiði að auka vísindalega þekkingu

• Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnasvæða.

• Leyfisveitingar og eftirlit verða einfölduð, m.a. með sameiningu rekstrarleyfis Matvælastofnunar og starfsleyfis Umhverfis- og orkustofnunnar

• Auknar eftirlitsheimildir Matvælastofnunar og aukin áhersla á rafrænt eftirlit

• Breytt fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar

• Skilvirkari viðbrögð vegna stroks

• Aukið aðhald og viðbrögð vegna lúsasmits og affalla, m.a. með innheimtu umhverfisgjalds

• Hertar reglur um eftirlit með kynþroska eldislaxa.

• Breytt fyrirkomulag á úthlutun til sveitarfélaga úr Fiskeldissjóði

2) Landeldi

Eðli máls samkvæmt er nauðsyn og tilefni frumvarpsins talsvert annars eðlis þegar kemur að landeldi. Regluverk greinarinnar byggir í dag að mestu leyti á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, sem einkum eru skrifuð með þarfir sjókvíaeldis í huga og ná illa utan um sérstöðu landeldis, s.s. þegar kemur að leyfisveitingum, eftirliti og dýravelferð. Með frumvarpinu er bætt úr þessu þar sem sérstaklega er fjallað um landeldi í einum þætti frumvarpsins. Viðamesti hluti þeirrar umfjöllunar lítur að smitvörnum og dýraheilbrigði í landeldi. Með frumvarpinu er reynt að draga fram þau sérkenni sem skilja að landeldi frá sjókvíaeldi sem helgast af ólíku eldisumhverfi og ólíkum áskorunum, jafnt fyrir rekstraraðila og Matvælastofnun sem annast eftirlit með starfseminni.

3) Hafeldi

Í fjórða þætti frumvarpsins er fjallað um hafeldi en það er eldi sem er stundað utan fjarðarkerfa. Hafeldi er enn sem komið er á hugmyndastigi hér á landi en aukinn áhugi hefur verið á slíkri starfsemi síðastliðin ár. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir. Með frumvarpinu er sniðinn rammi utan um þær rannsóknir og leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf sé fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar.

4) Fjarðabeit

Að endingu er að finna nýmæli í frumvarpinu sem er fjarðabeit. Í hnotskurn felst í fjarðabeit í að rækta fisk sem er haldið í lokuðu búri á talsverðu dýpi og nærist fiskurinn eingöngu á náttúrulegu dýrasvifi sem er laðað að búrinu með ljóstækni. Þessi grein lagareldis er enn frumstigi og ætlunin með frumvarpinu er að veita tilraunum í greininni lagastoð. Sú reynsla sem fæst með slíkum tilraunum kann seinna meir að verða tilefni til setningu ítarlegri reglna um slíkan rekstur en lagt er til í þessu frumvarpi.

Hér með er óskað eftir umsögnum, athugasemdum og ábendingum um frumvarpsdrögin.

Viltu senda inn umsögn?

Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.

Boð um þátttöku (48)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa auðlinda

atrn@atrn.is