Til umsagnar
5.–16.12.2025
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-242/2025
Birt: 5.12.2025
Fjöldi umsagna: 0
Drög að reglugerð
Innviðaráðuneytið
Sveitarfélög og byggðamál
Drög að reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og reglugerð um almenn jöfnunarframlög.
Ráðuneytið hefur undanfarið unnið að endurskoðun á gildandi regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í kjölfar þess að sett voru sérstök lög um sjóðinn á vorþingi. Hefur ráðuneytið átt samráð við ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga um þau drög sem nú eru birt til umsagnar í samráðsgátt.
Helstu breytingar sem leiða af lagabreytingum eru þessar:
1. Sett verður ný reglugerð um almenn jöfnunarframlög.
Áður voru ákvæði um tekju- og útgjaldajöfnunarframlög hluti af reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Betur þykir fara á því, með tilliti til 22. gr. laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, að sett verði sérstök reglugerð um almenn jöfnunarframlög.
Þar sem ákvæði um almenn jöfnunarframlög eru ítarlega útfærð í lögunum er reglugerðin að mestu samhljóða lögunum.
2. Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fjallar eingöngu um starfsemi sjóðsins og framlög sem ekki er fjallað um í öðrum reglugerðum.
Ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga kemur í stað reglugerðar nr. 1088/2018, með síðari breytingum. Hluti þeirra breytinga sem gerðar verða á reglugerðinni endurspegla þá ítarlegu umgjörð sem Jöfnunarsjóði er nú mörkuð í sérstökum lögum um sjóðinn.
Leitast er við að setja heldur ítarlegri ákvæði um starfsemi Jöfnunarsjóðs þar sem við getur átt. T.d. er bætt inn ákvæðum um samninga við IRN og Fjársýsluna um rekstrarlega þætti. Ákvæði um Ársfund Jöfnunarsjóðs, sbr. 6. gr., er á meðal annarra nýmæla sem snúa að rekstri sjóðsins. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja fyrir ráðgjafarnefnd sem tilgreini framkvæmdaratriði sem ekki koma fram í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Á meðal nýmæla í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eru ákvæði 12. og 13. gr., sem fjalla um framlag til skólaaksturs úr dreifbýli og framlög vegna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli. Í 5. gr. laganna er ráðherra heimilað að setja vinnureglur um þessi framlög en betur þykir fara á því að kveða á um úthlutun þessara framlaga í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Einnig er ákvæði 17. gr. nýmæli en þar er kveðið á um sérstök tímabundin verkefni Jöfnunarsjóðs, þ.e. verkefni sem fela í sér úthlutun fjármuna til sveitarfélaga og eru ákveðin á fjárlögum ár hvert, oftast á grundvelli samninga milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þessi verkefni eru ekki hluti af reglulegri starfsemi Jöfnunarsjóðs en rétt þykir að þau séu sýnileg í því regluverki sem sjóðurinn starfar eftir.
Nánari skýringar við einstök ákvæði í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og reglugerð um almenn jöfnunarframlög koma fram í vinnuskjali sem birt er undir „fylgiskjöl/ítarefni“.
3. Reglugerð um fasteignaskattsjöfnunarframlög fellur úr gildi.
Ákvæði um þetta framlag er ekki að finna í nýju lögunum.
4. Fjárhagsleg áhrif
Í reglugerð um almenn jöfnunarframlög er verið að innleiða í regluverk Jöfnunarsjóðs breytingar sem taka gildi 1. janúar 2026 á grundvelli laga nr. 56/2025 um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þessar breytingar hafa verið kynntar ítarlega fyrir sveitarfélögunum og nýja reglugerðin um almenn jöfnunarframlög hefur engin áhrif á útgjöld sjóðsins eða útreikning framlaga til sveitarfélaga umfram það sem þegar leiðir af lögunum.
Reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga felur í sér ítarlegri umgjörð en áður um starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ætti að auka gagnsæi um starfsemina. Reglugerðin hefur hins vegar engin áhrif á útgjöld sjóðsins eða útreikning framlaga til sveitarfélaga umfram það sem þegar leiðir af lögunum.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa sveitarfélaga, stafrænna innviða og byggðamála
irn@irn.is