Til umsagnar
14.–21.11.2025
Í vinnslu
22.11.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-227/2025
Birt: 14.11.2025
Fjöldi umsagna: 5
Drög að frumvarpi til laga
Mennta- og barnamálaráðuneytið
Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála
Í frumvarpsdrögum eru lagðar til breytingar sem kveða á um starfrækslu miðlægs nemendagrunns fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla og lögum um framhaldsskóla (miðlægur nemendagrunnur).
Skortur er á samræmdri skráningu gagna tengdum hagsmunum barna og ungmenna vegna lögbundinna hlutverka aðila á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna. Upplýsingar til að mynda um skólavist, flutning milli skóla og sveitarfélaga, námsframvindu samkvæmt Matsferli og stuðning sem nemendur njóta eru ekki aðgengilegar á einum stað. Þá hafa lykilupplýsingar menntakerfisins verið vistaðar hjá mismunandi aðilum, í mismunandi kerfum og á ólíku formi. Núverandi fyrirkomulag torveldar yfirsýn, hvort sem um er að ræða stöðu einstaka barns, skóla eða menntakerfisins alls. Þetta fyrirkomulag styður ekki við að hægt sé að koma úrbótum til leiðar fljótt og vel og skapar áskoranir og kostnað.
Miðlægum nemendagrunni er ætlað að halda utan um skilgreindar upplýsingar með samræmdum og kerfisbundnum hætti á landsvísu, og að styðja ríki og sveitarfélög við lögbundin verkefni þeirra í þágu gæða skólastarfs, bættrar stefnumótunar, forgangsröðunar stjórnvalda og bættrar þjónustu í þágu barna og ungmenna.
Frumvarpinu er ætlað að aðlaga og styrkja lagaumhverfi að uppbyggingu stafræns gagnagrunns sem heldur miðlægt utan um skráningu upplýsinga um börn og nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum, þar á meðal að styrkja heimildir til vinnslu og skráningu viðkvæmra persónuupplýsinga.
Frumvarpið lýtur að því verkefni Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu að starfrækja miðlægan nemendagrunn og að henni verði heimilt að starfrækja stafrænar lausnir vegna verkefna sem unnin eru í þágu verkefna stofnunarinnar. Samhliða því eru gerðar breytingar á lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem leiðir af starfrækslu grunnsins.
Þá er með frumvarpi þessu lagt til að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu geti annast umsýslu með innritun í leik-, grunn- og framhaldsskóla, þar á meðal að heimilt verði að taka á móti og vista umsóknir sem berast í gegnum stafrænt umsóknarkerfi Stafræns Íslands í miðlægan gagnagrunn. Í ljósi þess eru lagðar til breytingar á lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla sem snýr að þessu hlutverki Miðstöðvarinnar, en nú þegar er kveðið á um slíka umsýslu af hálfu Miðstöðvarinnar í lögum um framhaldsskóla.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
mrn@mrn.is