Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.–28.11.2025

2

Í vinnslu

  • 29.11.2025–

Samráði lokið

Mál nr. S-225/2025

Birt: 13.11.2025

Fjöldi umsagna: 2

Drög að reglugerð

Atvinnuvegaráðuneytið

Landbúnaður

Drög að reglugerð um flutning sauð- og geitfjár yfir varnarlínur

Málsefni

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, hefur lagt fram í samráðsgátt drög að reglugerð um flutninga sauð- og geitfjár yfir varnarlínur. Reglugerðin byggir á tillögum Matvælastofnunar.

Nánari upplýsingar

Markmið nýrrar reglugerðar er að koma í veg fyrir að alvarlegir smitsjúkdómar berist milli varnarhólfa við flutning fjár yfir varnarlínur.

Samhliða gerð nýrrar reglugerðar um riðuveiki í fé var reglugerð um flutning líflamba milli landsvæða nr. 550/2008 endurskoðuð. Matvælastofnun lagði fram tillögur haustið 2024, ráðuneytið útfærði tillögurnar og gætti að samræmi við drög að nýrri reglugerð um riðuveiki og Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu. Á haustmánuðum samþykkti Alþingi breytingar á lögum um dýrasjúkdóma nr. 25/1993 en þær breytingar eru forsenda fyrir breyttri nálgun á reglum um flutninga fjár yfir varnarlínur.

Ný reglugerð felur áfram í sér takmarkanir, en helsta breytingin frá núgildandi reglugerð er að tekið er mið af arfgerðum í stað landsvæða (líflambasölusvæði). Drögin fela í sér viðamikla afléttingu hafta, þannig mun fjárbændum á stærstum hluta landsins gefast kostur á að selja fé yfir varnarlínur að því tilskyldu að féð beri verndandi (V/x) eða mögulega verndandi (MV/x) arfgerð. Áður voru það aðeins bændur á líflambasölusvæðum sem fengu heimild til að selja líflömb yfir varnarlínur. Með breytingunni opnast nýjar viðskiptaleiðir með líffé frá landsvæðum sem í áratugi hafa ekki haft möguleika á að flytja fé yfir varnarlínur og þannig ekki gefist kostur á að selja kynbótagripi til bænda í öðrum varnarhólfum. Áfram verða mikil höft á landsvæðum sem flokkast sem áhættusvæði, samkvæmt drögum að nýrri riðureglugerð, en landsvæðið nær frá Hrútafirði í vestri að Eyjafirði í austri.

Annað helsta nýmæli er að fallið er frá því að hafa flutninga líflamba og -kiða háð bæði sölu- og kaupaleyfum frá Matvælastofnun. Eingöngu verður krafist leyfa fyrir sölu fjár yfir varnarlínur og kaupendur þurfa ekki sérstakt leyfi til flutnings eins og nú er.

Þriðja helsta nýmæli í reglugerðinni er að liðkað er fyrir flutningum yfir varnarlínur án þess að sérstakt leyfi þurfi frá Matvælastofnun, í staðinn kemur tilkynningaskylda í afmörkuðum og skilgreindum tilvikum. Hér er um að ræða fé sem farið hefur sjálft yfir varnarlínu (línubrjótar), beri fé V/x eða MV/x verður heimilt að flytja það til baka til síns heima að uppfylltri meginreglunni „úr varnarhólfi með jafna eða betri sjúkdómastöðu en hólfið sem flutt er í“. Fram til þessa hefur öllum „línubrjótum“ verið slátrað alveg óháð því hvort féð beri verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir og bætur greiddar úr ríkissjóði. Einnig fellur hér undir flutningur á fé sem er arfhreint með verndandi arfgerð (V/V) og fé sem er flutt á kynbótastöð.

Allt framantalið stuðlar að mun einfaldari stjórnsýslu, fyrirsjáanleika og afléttingu hafta. Breytingarnar munu auðvelda bændum viðskipti með fé án þess þó að hætta á að riðuveiki aukist.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa landgæða og dýraheilsu

atrn@atrn.is