Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.–27.11.2025

2

Í vinnslu

  • 28.11.2025–

Samráði lokið

Mál nr. S-224/2025

Birt: 13.11.2025

Fjöldi umsagna: 16

Áform um lagasetningu

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölskyldumál

Frumvarp til laga um barnavernd

Málsefni

Drögin fela í sér frumvarp til nýrra heildarlaga um barnavernd.

Nánari upplýsingar

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um barnavernd. Frumvarpsdrögin byggja á umfangsmikilli stefnumótunarvinnu stjórnvalda sem fram hefur farið síðustu ár sem og víðtæku samráði við fagfólk í málaflokknum og börn.

Hinn 19. mars 2025 ritaði mennta- og barnamálaráðherra, ásamt fjármála- og efnahagsráðherra, og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um börn með fjölþættan vanda. Samkomulagið varðar ábyrgð á rekstri og kostnaði vegna búsetu barna með fjölþættan vanda utan heimilis og felur það í sér að ríkið taki aukna ábyrgð á uppbyggingu sérhæfðra vistunarúrræða fyrir hópinn. Í samkomulaginu er kemur fram að lokið verði við heildarendurskoðun barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem og endurskoðun á viðeigandi ákvæðum annarra laga, í því skyni að tryggja að lagaumhverfið samræmist þeirri framtíðarskipan sem samkomulagið grundvallast á og eru þau frumvarpsdrög sem hér eru kynnt til samráðs því mikilvægur liður í því að ríkið uppfylli skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu. Með frumvarpinu er lagt til að lög um barnavernd nái utan um stöðu þeirra barna sem þurfa langvarandi og fjölþættan stuðning, eftirfylgd og búsetu utan heimilis, vegna flókinnar og samsettrar röskunar í tauga- og vitsmunaþroska sem er til þess fallin að valda því að þau stofni heilsu sinni og þroska eða annarra í hættu.

Þá er með frumvarpinu lagt til að nýtt barnaverndarráð á vegum ríkisins taki til starfa. Það komi í stað umdæmisráða barnaverndar, sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á að skipa samkvæmt núgildandi barnaverndarlögum, og sérfræðingateymis vegna barna með fjölþættan vanda, sem starfrækt er á grundvelli 20. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Ráðinu verði falið ákvörðunarvald um nánar tilgreindar ráðstafanir á grundvelli laganna, þegar ekki liggur fyrir samþykki hlutaðeigandi aðila, sem og að leggja mat á það hvort það sé barni fyrir bestu að vera vistað utan heimilis vegna fjölþættra stuðningsþarfa.

Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til fjölmargar breytingar frá ákvæðum gildandi barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Aukin áhersla er á sjálfstæð réttindi barna, barnvæna nálgun og þverfaglegt samstarf þeirra aðila sem sinna þjónustu í þágu barna. Réttindi barna við málsmeðferð barnaverndar eru styrkt þar á meðal með aukinni áherslu á að börn fái skipaðan talsmann. Þá er meðal annars lagt til það nýmæli að mælt verði fyrir um réttindi barna til heilbrigðisþjónustu í vistun á vegum barnaverndar.

Í frumvarpinu er jafnframt fjallað með ítarlegum hætti um beitingu þvingunar gagnvart börnum sem vistuð eru utan heimilis í úrræðum á ábyrgð barnaverndaryfirvalda, þar á meðal hvenær má takmarka ferðafrelsi barna, leita á þeim, haldleggja muni og beita líkamlegri valdbeitingu, með áherslu á fyrirsjáanleika og réttindi barna. Um er að ræða ýmis nýmæli sem er ætlað að auka fyrirsjáanleika og meðal annars bregðast við ábendingum umboðsmanns Alþingis um skort á skýrri lagaumgjörð um beitingu þvingana innan barnaverndarkerfisins.

Þá er með frumvarpinu lagðar til fjölmargar aðrar breytingar sem er m.a. ætlað að skýra gildissvið laga um barnavernd gagnvart börnum sem eru hér á landi án forsjáraðila, með áherslu á eftirfylgni með börnum sem eru hér án fjölskyldu en einfaldari skimun og minni afskipti af börnum sem eru hér með nánum ættingjum.

Hvorki eru lagðar til veigamiklar breytingar á málsmeðferð barnaverndarmála né reglum um framboð úrræða í barnavernd, ef frá eru talin nýmæli um börn með fjölþættar stuðningsþarfir. Þó eru lagðar til margar minni breytingar sem eiga að einfalda málsmeðferð, skýra framsetningu og bregðast við atriðum sem komið hafa upp í framkvæmd gildandi barnaverndarlaga.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (5)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnsýslu, mats og eftirlits

mrn@mrn.is