Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.10.–7.11.2025

2

Í vinnslu

  • 8.11.2025–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-215/2025

Birt: 24.10.2025

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Atvinnuvegaráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum

Málsefni

Atvinnuvegaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu sæta samkeppnislög endurskoðun í fyrsta sinn frá árinu 2020. Breytingarnar taka m.a. mið af ábendingum Ríkisendurskoðunar sem komu fram í skýrslu frá júlí 2022, um stjórnsýsluúttekt á starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

Helstu breytingar varða ákvæði laganna um samrunaeftirlit. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um hækkun veltumarka tilkynningarskyldra samruna og samræmist hækkunin verðlagsþróun frá síðustu breytingu. Jafnframt er lagt til að veltumörkin taki framvegis breytingum árlega til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á eðli og upphæð samrunagjalds sem greiða skal til Samkeppniseftirlitsins þegar tilkynnt er um tilkynningarskyldan samruna. Í gildandi lögum er kveðið á um samrunagjöld að fjárhæð 200.000 kr. fyrir smærri samruna en 500.000 kr. fyrir stærri samruna. Gjaldið rennur til Samkeppniseftirlitsins og stendur undir 6-9% af kostnaði stofnunarinnar við eftirlitið. Í framangreindri skýrslu benti ríkisendurskoðandi á að þörf væri á að endurskoða umgjörð samrunagjalds þannig að það endurspeglaði betur vinnuna sem það á að standa undir, og lagði m.a. til að skoðað yrði að veltutengja gjaldið og skipta því upp í fleiri þrep. Með frumvarpinu er lagt til að samrunagjald verði fært í þrjú þrep og að skipting þrepa verði að hluta til veltutengd. Gjaldið verði 500.000 kr. fyrir samruna sem uppfylla skilyrði styttri samrunatilkynningar. Hefðbundið samrunagjald verði 1.000.000 kr., en 5.000.000 kr. ef heildarvelta félaga sem aðild eiga að samruna er hærri en 20 milljarðar króna. Lagt er til að þessar fjárhæðir fylgi verðlagsþróun líkt og við á um veltumörk tilkynningarskyldra samruna.

Í þriðja lagi er lögð til breyting sem varðar rannsóknarheimildir Samkeppniseftirlitsins, nánar tiltekið heimild þess til vettvangsrannsóknar sem samkvæmt gildandi lögum einskorðast við starfsstöðvar fyrirtækja. Lagt er til að heimildin verði rýmkuð þannig að vettvangsrannsókn Samkeppniseftirlitsins geti náð til annarra staða þar sem gögn kann að vera að finna, svo sem heimila stjórnenda og lykilstarfsmanna. Breytingin samræmist því sem gerist í öðrum EES-ríkjum og kröfum sem gerðar eru samkvæmt evrópskum samkeppnisrétti.

Aðrir þættir frumvarpsins varða m.a. tímafresti og upplýsingagjöf í samrunamálum og málsmeðferðartíma fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa viðskipta og markaða

atrn@atrn.is