Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 22.–29.10.2025

2

Í vinnslu

  • 30.10.2025–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-210/2025

Birt: 22.10.2025

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011

Málsefni

Lagt er til að lögreglu verði heimilt að beita rafrænu eftirliti með staðsetningarbúnaði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, samhliða ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili.

Nánari upplýsingar

Dómsmálaráðuneytið óskar umsagna um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Í þeim tilgangi að auka vernd brotaþola gegn heimilisofbeldi og umsáturseinelti er með frumvarpinu lagt til að innleidd verði í lög nr. 85/2011 ákvæði sem heimila lögreglu að taka ákvörðun um að beita rafrænu eftirliti með staðsetningarbúnaði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, samhliða ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili.

Jafnframt er lagt til að málsmeðferð hjá lögreglustjóra verði breytt á þann veg að fallið verði frá þeirri kröfu að ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili sé tekin af lögreglustjóra eða fulltrúa hans á heimilisvarnarþingi brotaþola. Með þeirri breytingu er þeim lögreglustjóra sem fer með rannsókn málsins, óháð heimilisvarnarþingi brotaþola, gert kleift að taka ákvörðun um nálgunarbann og/eða brottvísun af heimili, rafrænt eftirlit, framlengingu úrræðanna og jafnframt hafa umsjón með málinu fyrir dómi. Breytingin er til að stuðla að frekara samræmi og samfellu í meðferð máls brotaþola á rannsóknarstigi og hjá dómstólum, með það að markmiði auka réttaröryggi brotaþola.

Auk þess eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum til að viðurlög við brotum gegn rafrænu eftirliti séu í samræmi við núgildandi viðurlög við brotum gegn nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Því er með frumvarpinu lagðar til breytingar á viðeigandi ákvæðum almennra hegningarlaga, þess efnis, að ef einstaklingur brýtur gegn rafrænu eftirliti geti það varðað sektum eða fangelsi til samræmis við núgildandi viðurlög við brotum gegn nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Þá er lagt til að sömu viðurlög gildi þegar maður af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hindrar rafrænt eftirlit.

Markmið frumvarpsins er að auka vernd brotaþola gegn heimilisofbeldi og umsáturseinelti en þó með þeim hætti að jafnframt sé gætt að hagsmunum þess einstaklings sem sæta þarf rafrænu eftirliti með nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili. Breytingarnar eru taldar nauðsynlegar til að sporna gegn endurteknum brotum gegn nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili og bæta sönnunarfærslu vegna brota. Frumvarpið byggir á því sjónarmiði að ekki sé litið á heimilisofbeldi sem einkamál brotaþola heldur mál sem varðar samfélagið í heild og því nauðsynlegt að koma á frekari raunhæfum úrræðum til að bregðast við því. Þá liggur það sjónarmið til grundvallar frumvarpinu að ábyrgð heimilisofbeldis og umsáturseineltis eigi að liggja hjá sakborningi en ekki brotaþola.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa löggæslumála

dmr@dmr.is