Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 3.–17.10.2025

2

Í vinnslu

  • 18.10.–10.11.2025

3

Samráði lokið

  • 11.11.2025

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-195/2025

Birt: 3.10.2025

Fjöldi umsagna: 19

Drög að frumvarpi til laga

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (símar og snjalltæki)

Niðurstöður

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 157. löggjafarþingi, sjá 232. mál, þskj. 295. Gerð er grein fyrir niðurstöðum samráðs í 5. kafla frumvarpsins.

Málsefni

Í drögum að frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um grunnskóla varðandi sértækari heimildir ráðherra til að kveða á um í reglugerð um notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi.

Nánari upplýsingar

Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla (símar og snjalltæki). Frumvarpið felur í sér afmarkaðar breytingar á lögum um grunnskóla og miðar að því að styrkja og bæta lagagrundvöll til setningar reglugerðar um notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi. Lagðar eru til breytingar sem heimila mennta- og barnamálaráðherra að setja reglugerðir á grundvelli 14. og 30. gr., sbr. 33. gr. a laganna, þar sem fjallað verður nánar um framkvæmd, fyrirkomulag og undanþágur. Markmið slíkra reglna er að tryggja jafnræði milli skóla og stuðla að jákvæðu og öruggu skólaumhverfi. Útfærsla slíkrar reglugerðar verður unnin í samráði við hagsmunaaðila verði frumvarpið að lögum.

Hröð tækniþróun hefur haft töluverð áhrif á skólastarf en á sama tíma skapað margs konar áskoranir og ný tækifæri. Undanfarið hefur átt sér stað umræða í samfélaginu, sem og víða í Evrópu, hvort banna eða takmarka eigi notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi og útfærslu á þeirri notkun.

Á Íslandi er hvorki samræmd stefna né miðlægar reglur um notkun barna á símum og snjalltækjum í skólum. Flestir grunnskólar hér á landi hafa sett sér reglur eða viðmið um notkun farsíma í grunnskólum. Í ljósi þess hefur verið til skoðunar hvort móta eigi leiðbeiningar um viðeigandi og örugga notkun síma og snjalltækja í grunnskólum og veita skólunum svigrúm til útfærslu á slíkum reglum. Slík leið getur þó leitt til mismunandi útfærslna og því mikilvægt að samræma lágmarksviðmið og undanþágur í reglugerð til að ná því markmiði að bæta náms- og félagsumhverfi og líðan nemenda í skólum á landsvísu. Með því að styrkja heimildir mennta- og barnamálaráðherra til að setja miðlægar reglur skapast jafnframt ákveðinn sveigjanleiki til að bregðast með skjótari hætti við þeim áskorunum sem hröð tækniþróun hefur í för með sér í stað þess að kveða á um slíka notkun í löggjöf.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (17)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

mrn@mrn.is