Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 2.–16.10.2025

2

Í vinnslu

  • 17.10.2025–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-193/2025

Birt: 2.10.2025

Fjöldi umsagna: 13

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Drög að frumvarpi til laga um brottfararstöð

Málsefni

Lagt er til að sett verði lög um vistun útlendinga á brottfararstöð. Þá verði innleidd skimunarreglugerð sem kveði á um skimun ríkisborgara þriðju ríkja á ytri landamærum.

Nánari upplýsingar

Dómsmálaráðuneytið óskar umsagna um drög að frumvarpi til laga um brottfararstöð.

Markmið frumvarpsins er að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Schengen-samstarfinu og bregðast við athugasemdum föstu eftirlitsnefndar Schengen-samstarfsins með því að setja skýrar reglur um hvenær og að hvaða skilyrðum uppfylltum sé heimilt að vista útlending á brottfararstöð.

Ísland er eina Schengen-ríkið sem rekur ekki brottfararstöð. Úrræðið er ein af þeim aðgerðum sem miða að því að koma upp svipaðri lagaumgjörð og framkvæmd í útlendingamálum og tíðkast í nágrannalöndunum, þá sérstaklega annars staðar á Norðurlöndum.

Með frumvarpinu er verið að hverfa frá framkvæmd gildandi laga sem kveða á um að heimilt sé að handtaka útlending og færa í fangelsi, þegar tryggja þarf að útlendingur sé til staðar við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Frumvarpið kveður á um að óheimilt verði að vista fylgdarlaus börn á brottfararstöð. Það verður því eingöngu heimilt að vista börn á brottfararstöð þegar þau eru í fylgd með foreldri eða umsjónarmanni. Ríkari kröfur eru gerðar til vistunar barna og felst það m.a. í því að sett eru þrengri skilyrði fyrir vistun barna en almennt gildir um vistun lögráða einstaklinga. Brýn nauðsyn þarf að vera fyrir vistuninni, hún skal vera síðasta úrræði sem beitt er og í afar skamman tíma.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að innleidd verði svokölluð skimunarreglugerð, sbr. reglugerð (ESB) 2024/1356, sem telst til þróunar á Schengen-regluverkinu. Reglugerðin kveður á um að tilteknir ríkisborgarar þriðju ríkja sem koma að ytri landamærum Schengen-svæðisins skuli sæta ákveðnu skimunarferli. Í því felst meðal annars auðkenning, bakgrunnsathugun, bráðabirgðamat á heilsu og mat á því hvort viðkomandi sé í viðkvæmri stöðu.

Slíkar ráðstafanir eru þegar gerðar hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd. Skimunarreglugerðin kveður þó á um að ferlið eigi einnig að ná til þeirra sem koma ólöglega til landsins án þess að sækja um vernd og þeirra sem dvelja ólöglega í landinu án þess að hafa áður verið skimaðir við komu inn á Schengen-svæðið.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa alþjóðamála

dmr@dmr.is