Til umsagnar
3.–24.10.2025
Í vinnslu
25.10.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-191/2025
Birt: 3.10.2025
Fjöldi umsagna: 28
Drög að frumvarpi til laga
Atvinnuvegaráðuneytið
Landbúnaður
Atvinnuvegaráðuneyti kynnir til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins frá 21. desember 2024 er lögð áhersla á að rjúfa kyrrstöðu og vinna auð aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi, m.a. með því að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu og vinna að fjölbreytni í atvinnulífi og sterku samkeppniseftirliti. Þá er í þingsályktun um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040 sbr. ályktun 21/153 sérstaklega tekið fram að tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf.
Með frumvarpinu er lagt til fyrirtækjum í eigu eða undir beinum yfirráðum bænda heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti, þrátt fyrir tiltekin ákvæði samkeppnislaga. Markmið frumvarpsins er að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara, þ.e. bænda og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar að teknu tilliti til meginreglna samkeppnisréttar og þannig tryggja að bændur hafi sambærilegt svigrúm til samvinnu og hagræðingar líkt og í nágrannalöndum okkar. Þá er lagt til að felldar verði brott breytingar sem gerðar voru á ákvæðum búvörulaga með lögum nr. 30/2024.
Í drögum frumvarpsins er m.a. lagt til að:
- mælt verði fyrir um heimildir bænda og félaga þeirra til að eiga með sér samstarf til að vinna að hagsmunamálum, þar með talið markaðsmálum,
- mælt verði fyrir um eftirlit Samkeppniseftirlitsins með framkvæmd þessara heimilda og um leið afmörkuð betur mörkin milli samkeppnisréttar og búvörulaga,
- skilyrði þess að félag teljist til framleiðendafélags verði skilgreind sérstaklega og að slík félög séu undir beinum yfirráðum bænda,
- fella brott breytingar sem gerðar voru á ákvæðum búvörulaga skv. lögum nr. 30/2024,
- mælt verði fyrir um söfnunarskyldu afurðastöðva og framleiðendafélaga sem fara með a.m.k. 40% markaðshlutdeild í viðkomandi búgrein á markaði til að tryggja söfnun og móttöku mjólkur og sláturgripa úr sauðfjárrækt, nautgriparækt og hrossarækt ásamt því að lögð er á slíkar afurðastöðvar eða framleiðendafélög að þær taki ekki hærra gjald af bændum vegna heimtekinna afurða en sem nemur raunkostnaði.
Þá er í drögum frumvarpsins lagt til að ákvæði 71. gr. búvörulaga um heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu um framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða, verði felld brott 1. júlí 2027, en áðurnefnd grein var upphaflega sett með lögum 85/2004. Í frumvarpinu eru lagðar til heimildir fyrir bændur og félög þeirra til að eiga með sér samstarf og er ákvæði 71. gr. búvörulaga því óþarft verði frumvarpið að lögum. Lagt er þó til að veittur verði rúmur aðlögunartími, þannig að svigrúm sé fyrir þá aðila sem starfað hafa á grundvelli 71. gr. búvörulaga að gera viðeigandi breytingar til að geta uppfyllt skilyrði þess að verða framleiðendafélag.
Í drögum frumvarpsins er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði falið að hafa eftirlit með framleiðendafélögum, taki við umsóknum um skráningu, meti hvort skilyrði séu uppfyllt og hafi eftirlit með þeim samningum og ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli þessara ákvæða búvörulaga. Þá er einnig lagt til að heimildir Samkeppniseftirlitsins skv. samkeppnislögum nr. 44/2005 um upplýsingaöflun og viðurlög gildi við framkvæmd ákvæðanna. Einnig er lagt til að Samkeppniseftirlitið hafi eftirlit með skyldum (söfnunarskylda og gjaldtaka af heimteknum afurðum) afurðastöðva og framleiðendafélaga sem fara með að minnsta kosti 40% markaðshlutdeild í viðkomandi búgrein á markaði.
Hér með er óskað eftir umsögnum, athugasemdum og ábendingum um drög frumvarpsins, en umsagnarfrestur er til og með 17. október nk.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa landgæða og dýraheilsu
atrn@atrn.is