Til umsagnar
30.9.–20.10.2025
Í vinnslu
21.10.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-187/2025
Birt: 30.9.2025
Fjöldi umsagna: 23
Drög að frumvarpi til laga
Heilbrigðisráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Heilbrigðisráðherra kynnir ýmsar breytingar á lögum um sjúkratryggingar.
Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Breytingarnar felast m.a. í að skýra betur skyldu Sjúkratrygginga Íslands til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati. Lagt er til að biðtími eftir sjúkratryggingu við flutning til landsins verði styttur úr sex mánuðum í þrjá. Þá er lagt til að veita Sjúkratryggingum heimild til að meta hvort einstaklingur sé raunverulega búsettur hér á landi og fella niður sjúkratryggingu ef svo er ekki. Einnig er lagt til að greiðsluþátttaka vegna veikinda/slysa utan EES-svæðisins verði bundin við afmarkaða hópa, svo sem námsmenn, í stað þess að gilda almennt, í samræmi við það sem gildir á Norðurlöndunum.
Ýmsar breytingar eru lagðar til á heimildum til gjaldtöku og að m.a. verði heimilt að taka gjald vegna fjarheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar og útkalls sjúkrabifreiðar þegar þjónusta er veitt án þess að flutningur eigi sér stað. Þá verði ófrjósemisaðgerðir felldar undir almennar reglur um greiðsluþátttöku. Lagt er til að ákvæði um afsláttarstofn verði breytt og að samræmi verði á komugjöldum vegna þjónustu sálfræðinga og sjúkraþjálfara sem falla utan afsláttarstofns. Er einnig lagt til að heimilt verði að innheimta gjald ef sjúklingur mætir ekki í bókaðan tíma á heilsugæslu, enda fellur þá til kostnaður sem ekki fæst greiddur.
Lagðar eru til breytingar á 38. gr. laganna sem fjallar um þátttöku í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu þegar samningar eru ekki fyrir hendi. Meðal annars verði óheimilt að krefja sjúkling um aukagjöld þegar þjónustuveitandi fær greitt skv. gjaldskrá Sjúkratrygginga. Mælt er fyrir um heimild til greiðslna á grundvelli fjármögnunarlíkana auk ítarlegri skilgreininga á gagnaúrvinnslu og vinnsluheimildum Sjúkratrygginga. Ákvæði um miðlæga grunna heilbrigðisþjónustu og lyfja eru skýrð nánar og loks lagt til að stjórn Sjúkratrygginga Íslands verði lögð niður.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
hrn@hrn.is