Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 26.9.–12.10.2025

2

Í vinnslu

  • 13.10.2025–

Samráði lokið

Mál nr. S-186/2025

Birt: 26.9.2025

Fjöldi umsagna: 14

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Örorka og málefni fatlaðs fólks

Drög að frumvarpi til laga um réttindavernd fatlaðs fólks

Málsefni

Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um réttindavernd fatlaðs fólks.

Nánari upplýsingar

Megintilgangur frumvarps til laga um réttindavernd fatlaðs fólks er að styrkja og uppfæra lagaumgjörð sem fjallar um réttindavernd fatlaðs fólks á Íslandi og skýra betur ábyrgð þeirra aðila sem koma að málum sem varða réttindavernd þess. Með frumvarpinu er lagt til að lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, verði leyst af hólmi. Uppbygging laga um réttindavernd fatlaðs fólks verður sú sama og innihaldið mjög sambærilegt gildandi lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk en áhersla er lögð á að laga og skýra ákvæðin að breyttu umhverfi og auka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt og mannlega reisn fatlaðs fólks.

Við gerð frumvarpsins var tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við vernd hvers konar réttinda og stuðla að bættu jafnrétti og aðgengi í þjónustu við fatlað fólk en það eru helstu atriðin sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Jafnframt er áhersla lögð á að tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.

Með frumvarpinu er ætlunin að skerpa á hlutverki réttindagæslu fyrir fatlað fólk, sem heyrir undir Mannréttindastofnun Íslands, og tryggja skýrari verkaskiptingu á milli sýslumanna, sem m.a. hafa það hlutverk að staðfesta val á persónulegum talsmönnum, og réttindagæslu svo ljóst sé til hvers er ætlast af þeim. Ástæða þótti til að breyta heiti laganna í réttindavernd fatlaðs fólks þar sem ljóst þykir að heiti laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk endurspeglar ekki að fullu efni þeirra, enda fjalla þau ekki eingöngu um réttindagæslu, heldur einnig um hlutverk persónulegra talsmanna við að aðstoða notendur við gæslu og vernd hagsmuna sinna og bann við beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Með því verði réttarvernd fatlaðs fólks styrkt og því tryggður viðeigandi stuðningur. Þá er frumvarpinu ætlað að auka skilvirkni í málsmeðferð og ákvarðanatöku í málum er varða nauðung í þjónustu við fatlað fólk, einfalda ferla, minnka biðtíma eftir ákvörðun, auðvelda eftirlit og tryggja að mál séu áfram afgreidd á samræmdan hátt.

Áform um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda þann 11.7.2025. Sjö umsagnir bárust.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (10)

Umsjónaraðili

Skrifstofa félags- og lífeyrismála

aslaug.bjornsdottir@frn.is