Til umsagnar
22.9.–6.10.2025
Í vinnslu
7.10.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-179/2025
Birt: 22.9.2025
Fjöldi umsagna: 8
Áform um lagasetningu
Forsætisráðuneytið
Æðsta stjórnsýsla
Áformað er að setja á laggirnar nefndahús þar sem kæru- og úrskurðarnefndir í stjórnsýslu ríkisins hefðu aðsetur. Í því augnamiði þarf að gera tilteknar breytingar á ýmsum sérlögum.
Kæru- og úrskurðarnefndir í stjórnsýslu ríkisins eru nú milli 30 og 40 talsins. Sumar eru með fjölmarga starfsmenn og eru reknar sem sjálfstæðar stofnanir. Aðrar eru vistaðar innan ráðuneytis og njóta þar stoð- og sérfræðiþjónustu. Enn aðrar eru vistaðar hjá formönnum nefnda sem gjarnan eru lögmenn eða háskólakennarar.
Ljóst er að mikil tækifæri eru fyrir hendi til að auka skilvirkni og hagkvæmni í starfi þessara stjórnsýslunefnda. Með því að færa þær sem flestar á einn stað má spara í húsnæðiskostnaði og samnýta betur sérfræðiaðstoð, tölvumál og skjalaumsýslu. Jafnframt eru tækifæri til að bjóða upp á nútímalegan vinnustað þar sem verkefni eru fjölbreyttari en þegar starfsmenn vinna einungis fyrir eina nefnd. Með stofnun nefndahúss skapast einnig möguleikar á bættri þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki sem skjóta málum til slíkra nefnda með einni sameiginlegri kærugátt og samræmdri málsmeðferð eftir því sem kostur er.
Við undirbúning málsins hefur upplýsinga verið aflað um sambærileg nefndahús í Noregi og Danmörku. Þar er til dæmis lögð áhersla á að nefndahúsin séu þekkingarmiðstöðvar á sviði stjórnsýsluréttar. Við stofnun nefndahúss hér á landi verður einnig hugað að því sem og að nefndahúsið verði leiðandi á sviði nýsköpunar í opinberri stjórnsýslu, m.a. að því er varðar nýtingu gervigreindar.
Gert er ráð fyrir að nefndahúsið verði ráðuneytisstofnun undir forsætisráðuneytinu. Það kallar í sjálfu sér ekki á lagabreytingu. Hins vegar eru sums staðar í löggjöf hindranir fyrir því að tilteknar nefndir nýti sér þá aðstöðu, sérfræði- og stoðþjónustu sem þar verður í boði.
Þegar ákvörðun verður tekin um að tiltekin nefnd nýti sér aðstöðuna í nefndahúsi verður viðkomandi starfsfólki nefndar, ef því er að skipta og eftir því sem nánar verður útfært, boðinn flutningur til ráðuneytisstofnunarinnar. Jafnframt verður tryggt að fyrir liggi rækilegar upplýsingar um starfsemi nefndar, kostnað, fjölda mála og málsmeðferðartíma til þess að hægt sé að fylgjast með þróun mála og að tilætlaður ávinningur verði af þessum breytingum.
Gert er ráð fyrir að forræði á hverri nefnd og skipun nefndarmanna haldist óbreytt og að árlega semji forsætisráðuneytið við önnur ráðuneyti um fjárþörf sem fylgir hverri nefnd miðað við sett markmið um málshraða.
Nú þegar liggur fyrir vilji hjá fjórum stærstu kæru- og úrskurðarnefndunum og hlutaðeigandi ráðuneytum til að taka þátt í verkefninu. Gera má ráð fyrir að starfsmenn verði að minnsta kosti 60 talsins þegar fram líða stundir. Leit að hentugu húsnæði stendur yfir með aðstoð Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna. Unnið er að því að meta stofnkostnað einkum vegna þess að leigusamningar eru sums staðar fyrir hendi til nokkurra ára og vegna sameiginlegs tölvukerfis. Þegar á líður er gert ráð fyrir sparnaði vegna aukinnar hagkvæmni í rekstri.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stjórnskipunar
for@for.is