Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.9.–12.10.2025

2

Í vinnslu

  • 13.10.2025–

Samráði lokið

Mál nr. S-177/2025

Birt: 19.9.2025

Fjöldi umsagna: 11

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Drög að frumvarpi til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn

Málsefni

Kynnt eru drög frumvarps til laga er miðar að því að skapa bæði lagaramma og stofnanaramma um framkvæmd einstaklingsbundinna öryggisráðstafana samkvæmt dómsúrlausn.

Nánari upplýsingar

Á grundvelli áforma sem kynnt voru í sumar (mál nr. S-127/2025) og í samræmi við þingmálaskrá félags- og húsnæðismálaráðherra vegna nýhafins löggjafarþings, eru hér kynnt drög frumvarps til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Dómsmálaráðherra hyggst samhliða leggja fram frumvarp til laga um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga og er frumvarpsdrög þar að lútandi væntanleg í samráðsgátt.

Um er að ræða drög frumvarps sem miðar að því að skapa bæði lagaramma og stofnanaramma um framkvæmd einstaklingsbundinna öryggisráðstafana samkvæmt dómsúrlausn. Markmið með fyrirhugaðri lagasetningu er að bæta lagaumhverfi og framkvæmd öryggisráðstafana og gera úrbætur í málefnum einstaklinga sem með dómsúrlausn er gert að sæta slíkum ráðstöfunum. Þannig er frumvarpinu ætlað að bæta úr annmörkum á framkvæmd öryggisráðstafana hér á landi sem eftirlitsaðilar hafa bent á, m.a. umboðsmaður Alþingis. Settar verði skýrar lagaheimildir þegar nauðsyn ber til að grípa inn í réttindi einstaklinga. Einnig er ætlunin að bæta réttarstöðu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og skýra ábyrgð og framkvæmd til skýrleika fyrir alla þá sem að þessum málum koma.

Þá mun frumvarpið fela í sér að ný stofnun félags- og húsnæðismálaráðuneytis verði stofnuð og beri heitið Miðstöð um öryggisráðstafanir. Hlutverk stofnunarinnar verður að annast framkvæmd öryggisráðstafana skv. VII. kafla hegningarlaga, auk annarra verkefna í samræmi við ákvæði frumvarpsins.

Frumvarpinu er jafnframt ætlað að tryggja viðeigandi málsmeðferð í þeim afar sjaldgæfu tilvikum þegar börn sem náð hafa sakhæfisaldri sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt dómsúrlausn. Framkvæmd vistunar og þjónusta við börn sem sæta öryggisráðstöfunum verður þó á ábyrgð barnaverndaryfirvalda í samvinnu við nýja stofnun. Allar ákvarðanir skulu taka mið af því sem barni er fyrir bestu.

Markmiðið er einnig að tryggja að fólk sem þarf á öryggisráðstöfunum að halda fái bestu velferðarþjónustu sem kostur er á, í samræmi við þarfir þess hverju sinni. Þá skal tryggja að inngrip í réttindi einstaklinga verði hvorki umfangsmeiri né standi lengur en nauðsyn ber til. Frumvarpið miðar þannig bæði að því að vernda réttindi viðkomandi einstaklinga og að tryggja öryggi og almannahagsmuni. Þá er samhæfing og samstarf milli ráðuneyta og undirstofnana þeirra, sem og á milli ríkis og sveitarfélaga, lykilatriði við þá lagaframkvæmd sem frumvarpið leggur grunninn að.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (20)

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa félags- og lífeyrismála

frn@frn.is