Til umsagnar
19.9.–13.10.2025
Í vinnslu
14.10.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-175/2025
Birt: 19.9.2025
Fjöldi umsagna: 12
Drög að frumvarpi til laga
Dómsmálaráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sem varða skyldu fyrirtækja og stofnana til jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar.
Í frumvarpi þessu er lagt til að skylda til jafnlaunavottunar verði aflögð í núverandi mynd án þess þó að hvikað verði frá markmiðum laga nr. 150/2020 um að sporna gegn launamismunun á grundvelli kyns.
Áfram verður skylda fyrir fyrirtæki og stofnanir af tiltekinni stærð að skila inn gögnum um starfaflokkun ásamt launagreiningu til að sýna fram á að launasetning þeirra byggist á málefnalegum sjónarmiðum og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynbundna mismunun. Þannig verði áfram tryggt að laun séu ákvörðuð á sama hátt fyrir alla óháð kyni. Lagt er til að slík skýrslugjöf fari fram á þriggja ára fresti.
Í stað jafnlaunavottunar verði fyrirtækjum og stofnunum þannig gert að skila til Jafnréttisstofu gögnum um starfaflokkun og launagreiningu, ásamt tímasettri úrbótaáætlun, ef kynbundinn launamunur mælist, þar sem fram kemur hvernig brugðist skuli við og hvernig hann verði leiðréttur.
Einnig er í frumvarpinu lagt til að stærðarmörk verði rýmkuð og að miða skuli við fyrirtæki og stofnanir þar sem 50 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli.
Lagt er til að sama regla gildi fyrir öll fyrirtæki og stofnanir, jafnt á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Þó er lagt til að undantekning taki til Stjórnarráðsins þannig að öll ráðuneyti skuli skila gögnum samkvæmt lögunum óháð starfsmannafjölda.
Með breytingunni í frumvarpinu er komið til móts við gagnrýni um mikinn kostnað við ferli jafnlaunavottunar en fyrirtækjum og stofnunum er engu að síður gert skylt sem fyrr að skila nauðsynlegum gögnum um kynbundinn launamun og gera úrbætur þar sem þess gerist þörf.
Markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er óbreytt og enn verður farið fram á upplýsingar frá atvinnurekendum um kynbundinn launamun í formi skýrslugjafar og eftir atvikum úrbótaáætlana og skýringa á kynbundnum launamun og frávikum. Ábyrgð atvinnurekenda til að ná fram launajafnrétti er rík og það er eðlileg krafa að launakerfi séu gagnsæ og að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Einnig er gert ráð fyrir að gild jafnréttisáætlun skv. 5. gr. sé forsenda þess að fyrirtæki eða stofnun geti lokið skýrslugjöf um kynbundinn launamun.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa jafnréttismála
dmr@dmr.is