Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–24.10.2025

2

Í vinnslu

  • 25.10.2025–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-174/2025

Birt: 9.10.2025

Fjöldi umsagna: 12

Drög að frumvarpi til laga

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Fjölmiðlun

Frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna

Málsefni

Menningar, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskri menningu og íslenskri tungu.

Nánari upplýsingar

Á síðustu árum hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir þar með stöðu íslenskrar tungu.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna, með starfsemi á Íslandi, til að greiða svokallað menningarframlag. Menningarframlag verði í formi skatts sem nemi 5% af heildartekjum streymisveitna af sölu áskrifta á Íslandi.

Fjárfestingar í innlendu efni komi til skattalækkunar

-Gert er ráð fyrir að skatturinn lækki í samræmi við umfang beinna fjárfestinga í framleiðslu á innlendu efni og falli niður þegar beinar fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni nema 5% af skattstofni. Heimilt verði að dreifa kostnaði við beina fjárfestingu í innlendu efni sem umfram er 5% af stofni til útreiknings menningarframlags á allt að þrjú ár.

Undanþegnir aðilar

-Streymisveitur með ársveltu undir 20.000.000 kr. eða áskrifendafjölda undir 1% af fjölda heimila á Íslandi, verði undanþegnar greiðslu menningarframlags.

-Ríkisútvarpið verði undanþegið greiðslu menningarframlags, með vísan til þeirra skyldna sem nú þegar hvíla á Ríkisútvarpinu um þátttöku þess í kvikmynda- og sjónvarpsgerð, m.a. með kaupum af sjálfstæðum framleiðendum. Hið sama gildi um aðra sambærilega fjölmiðla sem heyra undir lög um um almannaþjónustufjölmiðla í öðrum EES-ríkjum.

-Þá verði streymisveitur sem eingöngu miðla íþróttaefni, fréttum eða trúarlegu efni undanþegnar greiðslu menningarframlags.

Hvað eru streymisveitur?

-Streymisveitur eru fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun (e. video on demand, VOD), sumar eingöngu innanlands en aðrar yfir landamæri til fleiri ríkja. Stærstu einkareknu streymisveiturnar hér á landi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi í september 2025 eru a.m.k. Netflix, Disney+, Viaplay, Amazon Prime Video og HBO MAX.

Markmið

-Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og íslenska tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu kvikmynda, stuttmynda, leikins sjónvarpsefnis og heimildamynda, sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun. Frumvarpið er liður í því að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Auk þess kann aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.

Skilgreining á innlendu efni

-Innlent efni í skilningi frumvarpsins er nýjar leiknar kvikmyndir, stuttmyndir, leikið sjónvarpsefni og heimildamyndir, sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun eða þar sem meira en helmingur talmáls er á íslensku og efni uppfyllir þar að auki aðra af eftirfarandi kröfum.

a) 50% eða hærra hlutfall framleiðslukostnaðar er greitt á Íslandi.

b) 50% eða hærra hlutfall af upptökum viðkomandi myndefnis fer fram á Íslandi.

-Lagt er til að fréttir, útsendingar frá íþróttaviðburðum, leikja- og skemmtidagskrá, auglýsingar, textavarpsþjónusta eða fjarkaup, teljist ekki til innlends efnis í skilningi frumvarpsins.

Skráningarskylda streymisveitna

-Lagt er til að streymisveitur tilkynni starfsemi sína til skráningar á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Komi upp vafatilvik verði Ríkisskattstjóra heimilt að leita umsagnar hjá fjölmiðlanefnd um það hvort aðili uppfylli skilyrði þess að teljast streymisveita í skilningi frumvarpsins.

Umsýsla og kæruleiðir

-Lagt er til að Ríkisskattstjóri annist álagningu menningarframlags, á grundvelli skýrslu sem skattskyldum aðilum verði gert að skila til Skattsins frá og með árinu 2026. Kvikmyndamiðstöð Íslands annist mat á því hvað teljist til fjárfestinga í innlendu efni í skilningi frumvarpsins. Þá er lagt til í frumvarpinu að ákvarðanir Ríkisskattstjóra verði kæranlegar til yfirskattanefndar en niðurstaða Kvikmyndamiðstöðvar um mat á innlendu efni verði kæranleg til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis.

Framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð verði hækkað

-Áætlað er að frumvarpið muni skila tekjum sem renni í ríkissjóð, sbr. 37. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Til að unnt verði að ná því markmiði sem að er stefnt með frumvarpinu miðast tillagan við þá grundvallarforsendu að framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð verði hækkað sem þeirri upphæð nemur, með ákvörðun Alþingis sem ákveður skiptingu fjárheimilda til málefnasviða og málaflokka í fjárlögum ár hvert.

Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju, íslensku efni.

Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu verður frumvarpið fullunnið og lagt fram á Alþingi á haustþingi 2025.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (8)

Umsjónaraðili

Skrifstofa nýsköpunar, rannsókna og stafrænna mála

mnh@mnh.is