Til umsagnar
16.–28.9.2025
Í vinnslu
29.9.–9.10.2025
Samráði lokið
10.10.2025
Mál nr. S-170/2025
Birt: 16.9.2025
Fjöldi umsagna: 4
Áform um lagasetningu
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Fjórar umsagnir bárust þar sem áformum var fagnað. Ábendingar sneru að innleiðingu, s.s. samráði, notendaprófunum og skýrri ábyrgð, auk athugasemda um rafræn skilríki. Tekið verður mið af ábendingum við innleiðingu laganna.
Innleidd er tilskipun sem miðar að því að tryggja að vefsetur og smáforrit hins opinbera uppfylli aðgengiskröfur.
Frumvarpið miðar að því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102, sem felld var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021. Markmiðið er að tryggja með lögum að vefsetur og smáforrit opinberra aðila séu aðgengileg öllum, sérstaklega fötluðu fólki, og þannig stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku í samfélaginu. Heimild til innleiðingar tilskipunarinnar var í frumvarpi til laga um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins sem var lagt fram á sl. löggjafarþingi án þess að verða að lögum. Nú stendur til að gera sérstakt frumvarp um innleiðinguna.
Núgildandi aðgengisstefna stjórnvalda frá árinu 2012 er ekki lagalega bindandi og skortir formleg ákvæði um eftirlit, vöktun og skilvirkar úrlausnarleiðir, sem eru skýr skilyrði í tilskipuninni. Úrlausnarefnið er því að lögfesta skyldur opinberra aðila og koma á fót virku eftirlitskerfi.
Fyrirhugað er að setja rammalög sem mæla fyrir um meginreglur, gildissvið og skyldur opinberra aðila. Lögin munu veita ráðherra víðtæka heimild til að útfæra tæknilegar kröfur og staðla (t.d. með vísun í Evrópustaðalinn EN 301 549), verklag við vöktun og form aðgengisyfirlýsinga í reglugerð. Þessi leið er talin heppileg þar sem hún veitir nauðsynlegan sveigjanleika til að bregðast við hraðri tækniþróun.
Helstu áhrif lagasetningarinnar eru metin sem hér segir:
Samfélagsleg áhrif: Áhrifin eru talin mjög jákvæð og er það meginmarkmið laganna. Þau munu tryggja grundvallarréttindi fatlaðs fólks til aðgangs að upplýsingum og þjónustu og hafa einnig jákvæð áhrif á eldri borgara, fólk með lesblindu og aðra hópa. Lögin eru talin hafa jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna, þar sem konur eru í meirihluta meðal öryrkja og eldri borgara og nýta opinbera þjónustu oftar. Samfélagslegur ávinningur af auknu jafnrétti og stafrænni þátttöku er metinn mun meiri en kostnaðurinn sem af lögunum hlýst.
Fjárhagsáhrif á ríkissjóð: Nettóáhrif á ríkissjóð eru neikvæð. Þau felast í varanlegum árlegum rekstrarkostnaði vegna nýs eftirlitsaðila, sem áætlað er að krefjist allt að eins stöðugildis auk kostnaðar við hugbúnað og aðkeypta þjónustu. Einnig kann að skapast tímabundinn, óbeinn kostnaður hjá ríki og sveitarfélögum vegna nauðsynlegra úrbóta á vefsvæðum og smáforritum. Ekki er gert ráð fyrir tekjuáhrifum fyrir ríkið. Ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaðinum í gildandi fjárlögum eða fimm ára fjármálaáætlun, en gert er ráð fyrir að honum verði mætt innan útgjaldaramma málaflokksins.
Efnahagsáhrif: Áhrif á atvinnulífið eru metin jákvæð. Lögfesting samræmdra, skýrra krafna eykur fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum sem þjónusta hið opinbera. Þetta getur stuðlað að virkari samkeppni og örvað vöxt með aukinni eftirspurn eftir sérhæfðri þekkingu á sviði vefaðgengis.
Til að lagasetningin nái markmiðum sínum er lögð áhersla á að einn ábyrgur eftirlitsaðili með skýrt umboð verði tilnefndur, opinberir aðilar fái fullnægjandi fræðslu og stuðning og að virk vöktun fari fram. Árangur verður metinn með kerfisbundinni gagnaöflun, m.a. með hlutfalli aðgengilegra vefsetra og fjölda ábendinga frá notendum, og með skýrslugjöf til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stjórnunar og umbóta
fjr@fjr.is