Til umsagnar
12.–26.9.2025
Í vinnslu
27.9.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-167/2025
Birt: 12.9.2025
Fjöldi umsagna: 21
Áform um lagasetningu
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Áformað er að afnema áminningarskyldu sem undanfara uppsagnar, annars vegar, og lausnar um stundarsakir, hins vegar. Jafnframt eru áform um breytingar á ákvæðum starfsmannalaga um setningu í embætti,
Samkvæmt fjármálaáætlun áranna 2026-2030 er stefnt að endurskoðun lagaramma um mannauðsmál ríkisins. Markmið slíkrar endurskoðunar eru umbætur í ríkisrekstri og bætt þjónusta við samfélagið. Við endurskoðun lagaramma um mannauðsmál ríkisins er einna helst að líta til laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þau voru á sínum tíma sett með það í huga að færa réttindi starfsfólks ríkisins nær því sem starfsfólk á almennum vinnumarkaði bjó við. Frekari skref í þá átt voru síðan stigin með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um jöfnun lífeyrissréttinda árið 2016. Við kjarasamningsborðið snúa kröfur stéttarfélaganna einkum að því að jafna laun á milli markaða og því er eðlilegt að skoða í hvaða tilvikum tilefni er til að jafna einnig réttindi og skyldur á milli markaða.
Meginefni áformanna miða að því að fella brott áminningarskyldu fyrir starfsfólk ríkisins. Einnig eru áform um að leggja til fáeinar tæknilegar breytingar á nokkrum ákvæðum starfsmannalaga, svo sem breytingar er varða það hvenær laun skulu greidd út og undanþágu frá auglýsingaskyldu þegar verið er að sameina stofnanir eða flytja verkefni á milli stofnana. Jafnframt eru áform varðandi breytingu á 24. gr. laganna er varða setningu annars manns í embætti vegna fjarveru skipaðs embættismanns og breytingar á ákvæðum er varða nefnd skv. 27. gr. laganna vegna afnáms áminningar hjá embættismönnum.
Mikilvægt er að samhliða vandaðri stjórnun mannauðsmála geti stofnanir ríkisins skapað starfsfólki öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Áformaðar breytingar er liður í því.
Ákvörðun um uppsögn og lausn um stundarsakir verða áfram stjórnvaldsákvarðanir. Þannig er tryggt að ákvarðanir munu áfram þurfa að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem samræmist réttmætisreglu stjórnsýslulaga og að meðalhófs verði gætt.
Starfsfólk ríkisins er í lykilhlutverki við að veita góða opinbera þjónustu og mikilvægt að stofnanir ríkisins laði að og búi yfir hæfu starfsfólki til þess að sinna opinberri þjónustu. Þannig næst fram hagkvæmni í ríkisrekstri og bætt þjónusta samfélaginu til heilla.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa kjara- og mannauðsmála
kmr@kmr.is