Til umsagnar
2.–22.9.2025
Í vinnslu
23.–30.9.2025
Samráði lokið
1.10.2025
Mál nr. S-157/2025
Birt: 2.9.2025
Fjöldi umsagna: 29
Drög að stefnu
Dómsmálaráðuneytið
Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
Alls bárust 25 umsagnir frá 24 aðilum um drög að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu frá 2.-22. september 2025. Umsagnir frá Mannréttindastofnun Íslands og Rauða krossi Íslands (RKÍ) bárust eftir að umsagnarfrestur rann út. Á síðunni er hægt að nálgast samantekt á innihaldi umsagnanna.
Drög að nýrri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks til áranna 2026-2029 eru lögð fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum er til 22. september.
Aðgerðaáætlunin er önnur aðgerðaáætlunin stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks og tekur hún gildi um næstu áramót. Í aðgerðaáætlunininni eru 34 aðgerðir, m.a. áform um réttarbætur, stuðning, rannsóknir, fræðslu og vitundarvakningu í þágu hinsegin fólks á öllum aldri.
Aðgerðaáætlunin tekur við af fyrstu aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025. Innan þeirrar áætlunar hefur verið stuðlað að markverðum umbótum í þágu hinsegin fólks. Hægt er að nefna að hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna var gerð refsiverð með breytingu á 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lagður var grunnur að afnámi banns við blóðgjöfum karla sem stunda kynlíf með öðrum körlum (MSM) með breytingu á reglugerð um blóðskimanir. Því ferli er framhaldið með aðgerð um afnám bannsins í þessari aðgerðaáætlun. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um framgang aðgerða í fyrstu aðgerðaáætluninni í mælaborði dómsmálaráðuneytisins.
Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks felur í sér lýsingu á stefnu stjórnvalda á málefnasviði hinsegin mála, beinar aðgerðir til að varpa ljósi á stöðu málaflokksins og/eða stuðla að framförum á sviði hinsegin málefna. Aðgerðir innan aðgerðaáætlunarinnar eru talsvert fleiri en innan fyrri aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks eða 34 miðað við 21 í fyrstu aðgerðaáætluninni. Öll ráðuneyti nema eitt bera ábyrgð á einni eða fleiri aðgerðum í áætluninni og fjölmargar undirstofnanir taka þátt í framkvæmd þeirra.
Framsetning aðgerðaáætlunarinnar er með nokkuð öðrum hætti en fyrri aðgerðaáætlana. Stærsta breytingin felst í því að aðgerðum er skipt niður í kafla eftir viðfangsefni til þess að auðvelda lesendum leit að aðgerðum innan einstakra málefnasviða. Minni breytingar felast í því að gerð er grein fyrir framkvæmdaraðila hverrar aðgerðar fyrir sig til að auka gagnsæi og auðvelda eftirfylgni. Ekki er heldur vísað til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með sama hætti og áður var gert enda er hvergi minnst á hinseginleika í markmiðunum. Meðal aðgerða má nefna stuðning við börn með kynama, fræðslu til starfsfólks í umönnun við hinsegin aldraða, könnun á fýsileika greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í heimtu og geymslu kynfruma og áform um stofnun rannsóknaseturs í hinsegin fræðum.
Enda þótt Íslendingar hafi náð langt á sviði hinsegin réttinda á hinsegin fólk enn undir högg að sækja á Íslandi. Með aðgerðum í málefnum hinsegin fólks til áranna 2026–2029 leggja stjórnvöld sig fram um að stuðla að bættum réttindum, aðstæðum, viðurkenningu og þátttöku hinsegin fólks í samfélaginu. Mikilvægt er að þjóðir eins og Íslendingar beiti sér gegn bakslagi á sviði hinsegin mannréttinda og sæki fram bæði á heimavelli og út á við. Nýja aðgerðaáætlunin felur í sér metnað stjórnvalda til að stuðla að hvoru tveggja.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála
dmr@dmr.is