Til umsagnar
20.8.–11.9.2025
Í vinnslu
12.9.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-151/2025
Birt: 20.8.2025
Fjöldi umsagna: 9
Drög að frumvarpi til laga
Dómsmálaráðuneytið
Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum varðandi stafræna og rafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum.
Dómsmálaráðuneytið hefur haft til skoðunar reglur erfðalaga, laga um aðför, laga um skipti á dánarbúum o.fl., laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga um nauðungarsölu, með það að markmiði að taka skref í átt að staf- og rafrænum lausnum við meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum. Framþróun á öðrum réttarsviðum sem og bætt tækni hafa opnað á tækifæri til að gera ferlið að miklu leyti rafrænt eða stafrænt og þar með auka skilvirkni í málsmeðferðinni. Þá hafa málsmeðferðarreglur laganna í meginatriðum haldist óbreyttar frá gildistöku laganna og samskiptaaðferðir sem þar er kveðið á um að ýmsu leyti úreltar og því þörf á endurskoðun þeirra.
Með lögum nr. 32/2020, 121/2020, 136/2021 og 98/2023 voru gerðar breytingar m.a. á erfðalögum nr. 8/1962 og lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sem miðuðu að því að styðja við umbætur á þjónustu og málsmeðferð við skipti dánarbúa með stafrænni og rafrænni málsmeðferð. Lagaheimildirnar sem er að finna í ákvæði til bráðabirgða í erfðalögum og 158. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. hafa reynst vel í framkvæmd og ýtt undir nauðsynlegar framfarir í stafrænni þjónustu við skipti á dánarbúum. Nýsköpunarverðlaun sem sýslumannsembættin hlutu árið 2024 fyrir brautryðjendastarf við sjálfvirknivæðingu opinberrar þjónustu, sérstaklega stafræna málsmeðferð dánarbúa, er til marks um góða reynslu af framangreindum heimildum. Þar sem lagaheimildirnar falla úr gildi 1. janúar 2026, er mikilvægt að lögfesta varanlegar heimildir fyrir rafræna og stafræna málsmeðferð til að koma í veg fyrir rof á þróunarvinnu og innleiðingu stafrænna lausna í málsmeðferðinni. Samskonar bráðabirgðaheimildir er ekki að finna í lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um nauðungarsölu. Með frumvarpinu er ætlunin að nýta þá góðu reynslu sem fengist hefur af stafrænni málsmeðferð við skipti á dánarbúum og framþróun sem hefur orðið á öðrum réttarsviðum. Ber þar helst að nefna lög um rafrænar þinglýsingar, lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lög um aukatekjur ríkissjóðs (rafrænar þinglýsingar), lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og lög um breytingu m.a. á lögum um meðferð einkamála (miðlun og form gagna, fjarþinghöld, birting ákæra o.fl.).
Tilefni lagabreytinganna er að styðja við eftirfarandi markmið rafrænnar og stafrænnar málsmeðferðar. Í fyrsta lagi markmið um bætta þjónustu við almenning og einfaldari stjórnsýslu, enda miðar frumvarpið að því að fjölga þjónustuleiðum með framboði rafrænnar og stafrænnar málsmeðferðar til viðbótar við hefðbundna málsmeðferð. Í öðru lagi aukin skilvirkni með hraðari afgreiðslu mála og að auðvelda almenningi, sýslumönnum og dómstólum að miðla gögnum við meðferð mála með rafrænum og stafrænum hætti, ásamt því að bjóða upp á mætingu í gegnum fjarfundabúnað á skrifstofu sýslumanns og skiptastjóra. Sambærilegar heimildir eru fyrir í lögum um meðferð einkamála og því þykir ekki nauðsynlegt að mæla fyrir um heimild til notkunar fjarfundabúnaðar fyrir dómi í umræddum lagabálkum. Í þriðja lagi aukin hagræðing og umhverfisvernd þar sem rafræn og stafræn málsmeðferð leiðir til lægri kostnaðar við málsmeðferðina og gagnamiðlun auk minni pappírsnotkunar. Í fjórða lagi bætt réttaröryggi með öruggari birtingu gagna auk nýrra úrræða fyrir málsaðila til að gæta réttar síns í gegnum fjarfundabúnað.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa réttinda einstaklinga og skrifstofa réttarfars og stjórnsýslu
dmr@dmr.is