Til umsagnar
22.7.–5.8.2025
Í vinnslu
6.8.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-138/2025
Birt: 22.7.2025
Fjöldi umsagna: 6
Áform um lagasetningu
Dómsmálaráðuneytið
Almanna- og réttaröryggi
Lagt er til að sett verði lög um vistun útlendinga á brottfararstöð. Þá verði innleidd skimunarreglugerð sem kveði á um skimun ríkisborgara þriðju ríkja á ytri landamærum.
Markmið frumvarpsins er að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Schengen-samstarfinu og bregðast við athugasemdum föstu eftirlitsnefndar Schengen-samstarfsins með því að setja skýrar reglur um hvenær og að hvaða skilyrðum uppfylltum sé heimilt að vista útlendinga á brottfararstöð. Ísland er eina Schengen-ríkið sem rekur ekki brottfararstöð. Úrræðið er ein af þeim aðgerðum sem miða að því að koma upp svipaðri lagaumgjörð og framkvæmd í útlendingamálum og tíðkast í nágrannalöndunum, þá sérstaklega annars staðar á Norðurlöndum. Með frumvarpinu er verið að hverfa frá framkvæmd gildandi laga sem kveða á um að heimilt sé að handtaka útlending í þessari stöðu og færa í gæsluvarðhald.
Vistun á brottfararstöð, í þeim tilgangi að flytja viðkomandi af landi brott, snertir mannréttindi og er því háð ströngum takmörkunum. Því er mælt fyrir um að úrræðið sé aðeins beitt sem síðasta valkost, þ.e. þegar ekkert annað úrræði dugar til að framfylgja ákvörðun sem felur í sér að viðkomandi skuli yfirgefa Schengen-svæðið. Vistun á brottfararstöð er því aðeins fyrir hendi í þeim aðstæðum þar sem ljóst er að það er eina leiðin til að tryggja að hægt sé að undirbúa brottför og flytja viðkomandi úr landi.
Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að innleidd verði svokölluð skimunarreglugerð sem er hluti af verndar- og fólksflutningssamkomulagi Evrópusambandsins. Umrædd skimunarreglugerð kveður á um verklag til að skima ríkisborgara þriðju ríkja á ytri landamærum Schengen-svæðisins, m.a. gera auðkennis- og bakgrunnsathuganir, bráðabirgðamat á heilsu sem og að kanna hvort viðkomandi sé í viðkvæmri stöðu. Slíkar ráðstafanir fara fram hér á landi til samræmis við ákvæði laga um útlendinga þegar um er að ræða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í skimunarreglugerðinni er hins vegar gerð krafa um að þessar ráðstafanir taki einnig til ríkisborgara þriðju ríkja sem koma ólöglega til landsins um ytri landamæri og sækja ekki um alþjóðlega vernd, koma til lands eftir leitar- eða björgunaraðgerðir og til þeirra sem dvelja ólöglega í landinu ef engin vísbending er um að þeir hafi verið skimaðir á ytri landamærum.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa réttinda einstaklinga
dmr@dmr.is