Til umsagnar
14.7.–20.8.2025
Í vinnslu
21.8.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-127/2025
Birt: 14.7.2025
Fjöldi umsagna: 8
Áform um lagasetningu
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Örorka og málefni fatlaðs fólks
Kynnt eru áform um lagasetningu er miðar að því að skapa ramma um framkvæmd einstaklingsbundinna öryggisráðstafana samkvæmt dómsúrlausn.
Starfshópur sjö ráðuneyta hefur kortlagt þær úrbætur sem brýnt er að ráðast í varðandi málefni einstaklinga sem gert er að sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt dómsúrlausn. Hópurinn kynnti tillögur sínar í apríl sl. og snúa þær bæði að lögum og stofnanaumgjörð. Í tillögunum kemur fram að nauðsynlegt sé að taka upp að nýju stefnumörkun og frumvarpsdrög um þetta efni sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda árið 2022 (sjá mál nr. S-99/2022 og S-100/2022).
Á grundvelli þessara tillagna stefnir félags- og húsnæðismálaráðherra að því að leggja fram á Alþingi á komandi hausti uppfært frumvarp um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Samhliða hyggst dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga.
Í dag er ekki til heildstæður lagarammi um framkvæmd öryggisráðstafana. Áformaðri lagasetningu er ætlað að bæta úr þeirri stöðu með því að:
• skýra verkferla og ábyrgð stjórnvalda,
• tryggja samræmda framkvæmd og þjónustu við einstaklinga sem sæta öryggisráðstöfunum samkvæmt dómsúrlausn og
• tryggja mannréttindi og réttaröryggi fyrir þá einstaklinga sem þurfa samkvæmt dómsúrlausn að sæta öryggisráðstöfunum.
Í væntanlegu frumvarpi verður jafnframt kveðið á um nýja stofnun sem fari með framkvæmd og fullnustu öryggisráðstafana, auk annarra verkefna. Þá kallar efni frumvarpsins á að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja viðeigandi húsnæði fyrir þá þjónustu sem um ræðir. Í frumvarpinu verður lögð áhersla á batamiðaða nálgun í þjónustu við einstaklinga sem sæta öryggisráðstöfunum.
Áformuð lagasetning varðar málefni eftirfarandi hópa:
1. Einstaklingar sem lokið hafa afplánun fangelsisrefsingar, en samkvæmt áhættumati sem byggir m.a. á eðli brots, andlegu ástandi og hegðun í afplánun, teljast líklegir til að brjóta af sér að nýju og stofna samfélaginu í hættu, og skulu því, samkvæmt 67. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, annað hvort sæta öryggisráðstöfunum eða áframhaldandi vistun í fangelsi.
2. Einstaklingar sem hafa verið dæmdir eða úrskurðaðir til að sæta öryggisráðstöfunum á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, annað hvort vegna ósakhæfis eða þess að refsing þyki árangurslaus.
3. Einstaklingar sem hafa verið úrskurðaðir til að sæta verulegri og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.
Fyrirhuguð lagasetning er nauðsynleg til að vernda stjórnarskrárbundin réttindi þeirra einstaklinga sem um ræðir, til að uppfylla mannréttindaskuldbindingar, skýra verkferla og ábyrgð, samræma þjónustu og tryggja gegnsæi lagareglna um öryggisráðstafanir og gera beitingu þeirra fyrirsjáanlegri.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa félags- og lífeyrismála
frn@frn.is