Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 11.7.–8.8.2025

2

Í vinnslu

  • 9.8.–10.11.2025

3

Samráði lokið

  • 11.11.2025

Mál nr. S-126/2025

Birt: 11.7.2025

Fjöldi umsagna: 7

Áform um lagasetningu

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (snjalltæki)

Niðurstöður

Alls bárust sjö umsagnir. Almennt voru umsagnir um áformin jákvæðar, einkum um að samræma reglur eða viðmið og að áhersla væri lögð á bætt námsumhverfi og vellíðan nemenda. Ýmsar gagnlegar ábendingar komu fram sem litið var til við vinnslu frumvarpsins og lutu m.a. að útfærslu, framkvæmd, undanþágum og skilgreiningu á ýmsum hugtökum, til að mynda snjalltækjum. Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla (símar og snjalltæki) verða kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.

Nánari upplýsingar

Engar miðlægar eða samræmdar reglur um notkun síma, snjalltækja og samfélagsmiðla í grunnskólum eru að finna í löggjöf um grunnskóla. Áformin sem hér eru kynnt miða að því að styrkja heimildir fyrir setningu slíkra reglna.

Hröð tækniþróun hefur haft töluverð áhrif á skólastarf en á sama tíma skapað margs konar ný tækifæri. Rannsóknir hafa sýnt að truflun frá eigin tækjum í skólum tengist lakari námsárangri en jafnframt hafa rannsóknir sýnt að stafræn tækni er mikilvæg fyrir nám og námsárangur. Nánast öll íslensk börn og ungmenni hafa til umráða eigin snjallsíma (farsíma). Í skólastarfi er nemendum almennt séð fyrir viðeigandi búnaði til að sinna verkefnum sem tengjast stafrænni tækni. Samfélagsmiðlanotkun er mjög algeng meðal ungmenna í eigin snjallsímum og í mörgum tilvikum yngri barna en æskilegt er að samfélagsmiðlanotkun í afþreytingartilgangi sé ekki heimil í tölvubúnaði sem skóli útvegar nemendum. Með viðeigandi notkun er hægt að stuðla að bættu umhverfi nemenda og kennara, og bættri líðan nemenda. Að auki getur viðeigandi notkun og reglubundin fræðsla m.a. stuðlað að aukinni félagslegum og jákvæðum samskiptum „í raunheimum“, eflt félagsfærni og stuðlað að ábyrgri nethegðun og öruggari stafrænum samskiptum.

Í ágúst 2023 var skipaður starfshópur á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis sem hafði það hlutverk að móta leiðbeiningar um viðeigandi og örugga farsímanotkun í grunnskólum með fulltrúum ýmissa haghafa. Fyrir liggja drög að skýrslu. Í skýrsludrögunum eru niðurstöður reifaðar, þar sem m.a. kemur fram að snjallsímar eigi ekkert erindi innan grunnskóla í afþreyingartilgangi. Þá kemur fram að hópurinn er sammála um að notkun farsíma hjá nemendum í 1.-7. bekk eigi almennt ekki að vera í skólastarfi og að notkun samfélagsmiðla á skólatíma eigi alltaf að vera óheimil. Innan hópsins voru aftur á móti sjónarmið á móti algjöru símabanni í grunnskólum.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur í mennta- og barnamálaráðuneytinu verið unnið að undirbúningi samræmdra reglna um notkun síma, snjalltækja og samfélagsmiðla í skólum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa ráðuneytisstjóra og innri þjónustu

mrn@mrn.is