Til umsagnar
7.5.–4.6.2025
Í vinnslu
5.6.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-86/2025
Birt: 7.5.2025
Fjöldi umsagna: 2
Áform um lagasetningu
Atvinnuvegaráðuneytið
Markaðseftirlit og neytendamál
Vinna er hafin í atvinnuvegaráðuneyti um frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, sem ráðgert er að leggja fram á haustþingi 2025.
Stefnt er að því að atvinnuvegaráðherra muni á haustþingi 2025 leggja fram frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Frumvarp sama efnis var lagt fram af þáverandi forsætisráðherra í febrúar 2024 en náði ekki fram að ganga (154. löggjafarþing - 726. mál).
Forsaga málsins er sú að árið 2021 skipaði forsætisráðherra starfshóp með fulltrúum sex ráðuneyta til að vinna að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Ástæða þess að farið var í þessa vinnu var annars vegar sú að víða í nágrannaríkum Íslands hefur nýverið verið sett slík löggjöf, í ljósi þróunar í alþjóðamálum, og hins vegar að gildandi lög nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem fela í sér ákveðnar takmarkanir á erlendri fjárfestingu og rýni, eru um margt veikburða og skortir fyrirsjáanleika, skýrar málsferðferðarreglur og valdheimildir.
Á grunni framangreinds er vinna hafin innan atvinnuvegaráðuneytis við að fara yfir og uppfæra fyrri drög að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Fyrirhugað er að það frumvarp muni taka mið af þeim umsögnum og ábendingum sem bárust við fyrri frumvörp, áherslum úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, sem og þeirri þróun sem orðið hefur í alþjóðamálum og alþjóðaviðskiptum undanfarin ár.
Markmið frumvarpsins verður að leggja fram heildstæðan lagaramma um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Hugtakið „rýni“ vísar til greiningar og mats á því hvort viðskiptaráðstafanir, sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.
Vinna við frumvarpið mun taka mið af alþjóðlegri þróun á þessu löggjafarsviði, en flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafa þegar sett löggjöf sambærilega þeirri sem lögð verður til með frumvarpinu, þó með mismunandi útfærslum. Þá hefur framkvæmdastjórn ESB kynnt tillögu að nýrri reglugerð um rýni erlendra fjárfestinga, sem miðar að því að gera öllum aðildarríkjum sambandsins skylt að hafa til staðar rýnilöggjöf og rýna tilteknar tegundir fjárfestinga.
Færa má rök fyrir því að öflug löggjöf um fjárfestingarýni sé til þess fallin að auka traust á íslensku fjárfestingarumhverfi til hagsbóta fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild. Þá má með hliðsjón af erlendri réttarþróun á undanförnum árum, þ.m.t. í aðildarríkjum OECD og Evrópusambandsins (ESB), leiða rök að því að reglur um rýni erlendra fjárfestinga geti nú talist sjálfsagður þáttur í lagaumhverfi ríkja.
Meginstef lagareglna um fjárfestingarýni snýr að því að samþætta sjónarmið um mikilvægi erlendra fjárfestinga fyrir efnahagslíf og atvinnuþróun, og nauðsyn þess að erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum og annarri samfélagslega mikilvægri starfsemi ógni ekki þjóðaröryggi eða allsherjarreglu. Fjárfestingarýni er þannig ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur er markmiðið að ganga úr skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum sviðum leiði ekki af sér öryggisógn.
Gildandi ákvæði í íslenskri löggjöf um rýni á fjárfestingum erlendra aðila er helst að finna í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Almennt má segja að lög nr. 34/1991 séu í engu samræmi við nýlegar lagasetningar nágrannaþjóða Íslands um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, og uppfylla þau ekki þær kröfur sem gera þarf til slíkrar rýnilöggjafar.
Litið er svo á að traust regluverk utan um rýni á erlendri fjárfestingu sé mikilvægur hlekkur í þjóðaröryggi og baráttu við óæskileg áhrif erlendra aðila hér á landi sem geta ógnað öryggi og allsherjarreglu. Þá myndi slík löggjöf styrkja orðspor Íslands gagnvart bandalagsríkjum sem ríki sem tekur þjóðaröryggi alvarlega og skapa traust á Íslandi sem samstarfsríkis á þessum vettvangi. Eru nágrannaríki farin að horfa til þeirra hluta í vaxandi mæli í samskiptum sín á milli.
Að sama skapi verður að gæta þess að með slíkri löggjöf séu ekki settar óþarfa hindranir eða flækjustig sem dragi úr erlendri fjárfestingu og samkeppnishæfni Íslands. Einnig þarf að gæta að stjórnarskrárvörðum réttindum á sviði atvinnufrelsis og eignaréttar, þegar kemur að inngripi stjórnvalda í frjáls viðskipti á markaði. Erlendar nýfjárfestingar eru, nú sem áður, mikilvægar fyrir fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og verðmætasköpun í landinu.
Lögð verður áhersla á að gæta að þessu jafnvægi við vinnu við gerð frumvarps til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, sem áformað er að leggja fram á haustþingi 2025 og verður nánar kynnt á síðari stigum.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa viðskipta og markaða
atrn@atrn.is