Til umsagnar
6.–27.5.2025
Í vinnslu
28.5.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-84/2025
Birt: 6.5.2025
Fjöldi umsagna: 9
Drög að reglugerð
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Örorka og málefni fatlaðs fólks
Drög að nýrri reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni.
Samkvæmt 16. gr. laga nr. 38/2018 skulu sveitarfélög bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur, og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst, svo og á þeim dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, þegar skólar starfa ekki. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla og lýkur þegar viðkomandi lýkur framhaldsskóla (frá 5. bekk til loka framhaldskóla).
Sem kunnugt er eru frístundaheimili starfrækt við fjölmarga grunnskóla, sér í lagi í stærri sveitarfélögum. Þar er boðið upp á þjónustu fyrir börn í 1.–4. bekk, en eldri börn eru talin hafa öðlast nægilega færni til að sjá um sig sjálf að loknum skóladegi. Hið sama gildir ekki um fötluð skólabörn í 5. bekk og eldri. Því er víða boðið upp á lengda viðveru, þ.e. þjónustu sem tekur við af frístundaheimilum. Með lögum nr. 38/2018 var þessi sértæka frístundaþjónusta lögfest í 16. gr. Tilgangurinn með ákvæðinu var að jafna aðstöðu foreldra á vinnumarkaði þannig að þeir geti unnið fullan vinnudag og þurfi ekki að ljúka vinnudegi um leið og hefðbundnum skóladegi lýkur. Það er því mikill ávinningurinn fyrir samfélagið í heild sinni að slík þjónusta sé í boði í hverju sveitarfélagi. Þá var tilgangurinn einnig að bjóða öllum börnum, fötluðum og ófötluðum, upp á sambærilega þjónustu. Einnig má benda á að könnun á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2013 leiddi í ljós að mikil eftirspurn er eftir sértækri frístundaþjónustu. Jafnframt er tilgangur þessarar þjónustu að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna.
Árið 2019 voru gefnar út leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi framkvæmd frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni samkvæmt lögum nr. 38/2018. Í lögunum er ekki fjallað um gjaldtöku vegna þjónustunnar en í 10. gr. leiðbeininganna er sérstaklega fjallað um gjaldtöku.
Reglugerðin kæmi í stað leiðbeininganna en í þeim drögum sem hér eru birt til umsagnar er skýrt kveðið á um að ekki sé heimilt að innheimta þátttökugjald fyrir frístundaþjónustu sem veitt er á grundvelli 16. gr. laga nr. 38/2018.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa félags- og lífeyrismála
aslaug.bjornsdottir@frn.is