Til umsagnar
6.–20.5.2025
Í vinnslu
21.5.–4.9.2025
Samráði lokið
5.9.2025
Mál nr. S-83/2025
Birt: 6.5.2025
Fjöldi umsagna: 383
Stöðumat og valkostir
Atvinnuvegaráðuneytið
Sjávarútvegur og fiskeldi
Atvinnuvegaráðuneyti kynnir til samráðs Skýrslu starfshóps um lagaumgjörð hvalveiða.
Þann 13. febrúar 2024 skipaði þáverandi matvælaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, starfshóp til að rýna og skila skýrslu um stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli. Fram kemur í skipunarbréfinu að markmið skýrslunnar sé að vera grundvöllur að framtíðarstefnumótun á málefnasviði hvalveiða, til að efla faglegan grundvöll ákvarðanatöku og stuðla að bættri stjórnsýslu til frambúðar.
Starfshópinn skipuðu Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari og var hann janframt formaður. Aðrir í starfshópnum voru Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við lagadeild Háskóla Íslands, Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari, Snjólaug Árnadóttir dósent og forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, og Trausti Fannar Valsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Árni Kolbeinsson lét af störfum í hópnum með bréfi dags. 5. október 2024 í kjölfar skipulagsbreytinga í ráðuneytinu.
Starfshópurinn hefur nú lokið vinnu sinni og skilað skýrslunni til atvinnuvegaráðherra. Í skilabréfi starfhópsins kemur fram að skýrslan skiptist í þrjá meginþætti og þrettán undirkafla. Fyrsti þáttur skýrslunnar ber heitið „Lagumhverfi hvalveiða“ (1.-7. kafli), annar þátturinn ber heitið „Stjórnsýsluframkvæmd“ (8.-9. kafli) og þriðji þátturinn ber heitið „Greining valkosta“ (10.-13. kafli) en kostirnir taka mið af þrennu, þ.e. að veiðum verði haldið áfram, að veiðar verði bannaðar, eða að veiðar verði takmarkaðar. Hvað fyrsta kostinn varðar þá beina skýrsluhöfundar sjónum sínum einkum að því hvort og þá að hvaða marki nauðsynlegt sé að endurskoða gildandi lög um hvalveiðar og þá með hvaða sjónarmið í huga. Hvað annan og þriðja kostinn varðar, þ.e. bann við veiðum eða takmörkun þeirra, fjallaði starfshópurinn um hvort og þá á hvaða grundvelli unnt sé að takmarka eða banna veiðarnar og hvernig standa beri að því. Í þeim efnum er í skýrslunni lögð rík áhersla á að fjalla um hvaða skorður stjórnarskráin setur slíkri lagasetningu og þá fyrst og fremst með tilliti til atvinnufrelsis og atvinnuréttinda þeirra sem veiðarnar stunda.
Ráðherra mun að loknu samráði taka ákvörðun um framtíð og lagaumgjörð hvalveiða á Íslandi. Ljóst er að hvaða leið sem farin verður þarf að ráðast í breytingar á lögum og er stefnt að því að slíkt frumvarp verði lagt fram á næsta löggjafarþingi.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa auðlinda
atrn@atrn.is