Til umsagnar
25.4.–30.5.2025
Í vinnslu
31.5.–8.7.2025
Samráði lokið
9.7.2025
Mál nr. S-81/2025
Birt: 25.4.2025
Fjöldi umsagna: 12
Annað
Dómsmálaráðuneytið
Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
Áform um tillögu til þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2026-2030 voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda, 25. apríl - 30. maí. 12 umsagnir bárust og almennt lýstu umsagnaraðilar ánægju með áformin og lýstu yfir vilja um samstarf við gerð og framkvæmd þingsályktunarinnar.
Dómsmálaráðuneytið kynnir áform um tillögu til þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2026-2030.
Dómsmálaráðuneytið kynnir áform um tillögu til þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2026-2030. Áætlunin verður unnin í víðtæku samráði við stofnanir, félagasamtök og fræðafólk sem starfar að forvörnum og verður byggð á því starfi sem unnið hefur verið við framkvæmd þingsályktunar nr. 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025. Óskað er eftir ábendingum um áformin og meðfylgjandi verkefnisáætlun.
Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á forvarnir sem leið til þess að uppræta þann samfélagslega vanda sem kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni er. Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja ofbeldið og stuðla að menningu virðingar þar sem ofbeldi og áreitni þrífst ekki.
Fyrsta heildstæða áætlunin um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, var samþykkt á Alþingi sumarið 2019. Þá voru í fyrsta sinn settar fram heildstæðar úrbætur sem byggja á forvörnum sem eru samþættar skólastarfi á öllum skólastigum, innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva og í öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Hægt er að nálgast upplýsingar um framgang aðgerða í mælaborði áætlunarinnar á vefsvæði skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála.
Til þess að vinna áfram að þeirri framtíðarsýn að útrýma kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum , tryggja samfellu og markvissan árangur til framtíðar, áforma stjórnvöld nú að hefja vinnu við nýja tillögu til þingsályktunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2026-2030. Fram fór yfirgripsmikil kortlagning á stöðu og þekkingu á forvarnarmálum gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi gegn börnum og ungmennum þegar núgildandi áætlun var unnin. Ný áætlun mun byggja á markmiðum þeirrar áætlunar, eftirfylgni hennar og mati á árangri við framkvæmd aðgerða. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála í dómsmálaráðuneytinu mun leiða vinnuna á tímabilinu frá maí til desember í ár. Áhersla verður lögð á vítt samráð.
Vinnu við aðgerðaáætlunina verður skipt upp í fjóra áfanga. Unnið verður að gagnaöflun í fyrsta áfanga, samráði í öðrum áfanga, úrvinnslu í þriðja áfanga og gæðarýni í fjórða áfanga. Nánar er gerð grein fyrir skipulagningu vinnunnar í meðfylgjandi verkefnisáætlun.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála
sunna.didriksdottir@dmr.is