Til umsagnar
10.4.–1.5.2025
Í vinnslu
2.–4.5.2025
Samráði lokið
5.5.2025
Mál nr. S-76/2025
Birt: 10.4.2025
Fjöldi umsagna: 9
Annað
Dómsmálaráðuneytið
Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
Átta umsagnir bárust um áform stjórnvalda um þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2026 – 2029. Alls bárust þrjár umsagnir frá félagasamtökum, ein frá réttindasamtökunum ÖBÍ, ein frá Landspítalanum og þrjár frá einstaklingum. Samantekt umsagna má finna hér að neðan.
Dómsmálaráðuneytið kynnir áform um þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026 – 2029. Óskað er eftir ábendingum um áformin og meðfylgjandi verkefnisáætlun.
Dómsmálaráðuneytið kynnir áform um þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026 – 2029. Stefnumótunin verður unnin í víðtæku samráði við hagaðila, samstarfsaðila og almenning. Óskað er eftir ábendingum um áformin og meðfylgjandi verkefnisáætlun.
Íslendingar eru meðal forystuþjóða um réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Engu að síður hefur fullum lagalegum réttindum hinsegin fólks á Íslandi enn ekki verið náð hér á landi. Með sama hætti er enn talsvert bil á milli formlegra réttinda hinsegin fólks og raunverulegra aðstæðna þess í samfélaginu.
Rannsóknir sýna fram á að hinsegin fólk verður frekar fyrir fordómum, áreitni og mismunun en aðrir í samfélaginu. Hinsegin fólk býr við verri andlega líðan, upplifir frekar einangrun og útilokun í samfélaginu heldur en aðrir. Bakslag í málefnum hinseginfólks á heimsvísu veldur því að hinsegin fólk á Íslandi upplifir í vaxandi mæli fordóma og hvers kyns áreitni á borð við níð á samfélagsmiðlum.
Íslensk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margháttuðum lagaumbótum á sviði hinsegin mála á borð við lög um kynrænt sjálfræði árið 2019. Stórt skref var stigið í málaflokknum með fyrstu þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022 – 2025. Aðgerðaáætlunin hefur að geyma 19 aðgerðir á ábyrgð 10 ráðuneyta um rannsóknir, fræðslu og ýmiss konar réttarbætur í þágu mannréttinda hinsegin fólks. Hægt er að nálgast upplýsingar um framgang aðgerða í mælaborði aðgerðaáætlunarinnar á vefsvæði skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála.
Nú áforma stjórnvöld að hefja vinnu við nýja þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks til áranna 2026 – 2029. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála í dómsmálaráðuneytinu mun leiða vinnuna á tímabilinu frá apríl til nóvember í ár. Áhersla verður lögð á vítt samráð við hagaðila, samstarfsaðila og almenning til að stuðla að markvissum aðgerðum, víðtæku eignarhaldi og sátt um verkefnið. Jafnframt verður litið til ábendinga ILGA Europe um réttindabætur, afraksturs fyrri aðgerðaáætlunar og ábendinga þar að lútandi.
Vinnu við aðgerðaáætlunina verður skipt upp í fjóra áfanga. Unnið verður að gagnaöflun í fyrsta áfanga, samráði í öðrum áfanga, úrvinnslu í þriðja áfanga og gæðarýni í fjórða áfanga. Nánar er gerð grein fyrir skipulagningu vinnunnar í meðfylgjandi verkefnisáætlun.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála
dmr@dmr.is