Til umsagnar
25.3.–3.4.2025
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-62/2025
Birt: 25.3.2025
Fjöldi umsagna: 13
Drög að frumvarpi til laga
Matvælaráðuneytið
Sjávarútvegur og fiskeldi
Atvinnuvegaráðuneyti kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018.
Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingu á skráðu aflaverðmæti í tilteknum nytjastofnum við útreikning veiðigjalds, þannig að það endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Samhliða því eru lagðar til breytingar á frítekjumarki vegna m.a. áhrifa á litlar- og meðalstórar útgerðir.
Í drögum frumvarpsins eru lagðar til eftirtaldar breytingar:
Lagt er til að viðmið aflaverðmætis í norsk-íslenskri síld, kolmuna, makríl, þorsk og ýsu verði breytt. Miðað verði við meðalverð á hvert kg. skv. opinberum gögnum frá Fiskistofu Noregs á ákveðnum tímabilum fyrir tilteknar uppsjávartegundir og miðað verði við meðalverð hvers mánaðar á fiskmarkaði yfir 12 mánaða tímabil fyrir þorsk og ýsu að teknu tilliti til hlutfalls magns í slægðu og óslægðu. Samhliða því er lagt til að fella brott 10% hækkun á skráðu aflaverðmæti norsks-íslenskrar síldar, loðnu, kolmunna og makríls.
Í frumvarpinu er lagt til að í aflaverðmæti uppsjávarfisktegunda verði aflaverðmæti umreiknað úr norskum krónum í íslenskar krónur miðað við miðgengi norsku krónunnar árið 2024 og taki breytingum árlega miðað við miðgengi SDR á hverju almanaksári sem birt er hjá Seðlabanka Íslands. Þó skal miða verð síldar annarrar en norsk-íslenskrar síldar við 90% af aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar.
Lagt er til að frystiskip verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjalds skv. 5. gr. laganna. Samhliða því er áformað að fella brott lækkun á skráðu aflaverðmæti frysts afla skv. 2. mgr. 5. gr. laganna. Sá afsláttur sem er 10% og endurspeglar ekki raunverulegt aflaverðmæti, þar sem um er að ræða fullunna vöru við löndun. Lagt er til að aflaverðmæti landaðs frysts afla lækki um 20% þegar 50% eða meira af lönduðum afla eru frystar afurðir.
Aflaverðmæti í reiknistofni veiðigjalds annarra nytjastofna verður áfram byggt á upplýsingum í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa sem Ríkisskattstjóri safnar saman.
Engar breytingar eru lagðar til á útreikningi veiðigjalds og áfram verður veiðigjald 33% af reiknistofni hvers nytjastofns.
Framangreindar breytingar munu hafa þau áhrif að veiðigjald hækkar sem hefur mest áhrif á botnfiskútgerðir sem ekki hafa vinnslu og litla- og meðalstóra aðila. Til að milda þau áhrif er lagt til að frítekjumark nemi 50% af fyrstu 10 millj. kr. álagningar og 30% álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila upp að hámarki 20 millj. kr. Þá er lagt til að fjárhæðirnar taki breytingum skv. vísitölu neysluverðs frá janúar 2024.
Lagt er til að frumvarpið verði það að lögum öðlist gildi 1. nóvember 2025 og komi til framkvæmda á veiðigjaldaárinu 2026.
Hér með er óskað eftir umsögnum, athugasemdum og ábendingum um drög frumvarpsins, en umsagnarfrestur er til og með 3. apríl nk.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa auðlinda
atrn@atrn.is