Til umsagnar
21.2.–7.3.2025
Í vinnslu
8.3.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-45/2025
Birt: 21.2.2025
Fjöldi umsagna: 7
Drög að frumvarpi til laga
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið
Háskólastig
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna (námsstyrkir og endurgreiðslur).
Lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020. Þau fólu í sér grundvallarbreytingar á námslánakerfinu frá því sem áður var, einkum með samspili vaxta á námslán og síðan niðurgreiðslu þeirra í formi námsstyrkja, sem ætlað var að hvetja nemendur til að ljúka námi á tilskyldum tíma. Í frumvarpinu eru áformaðar breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, til viðbótar þeim sem voru samþykktar á síðasta þingi. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögunum, sem fjallar um endurskoðun þeirra að þremur árum liðnum frá gildistöku þeirra, var unnið mat á áhrifum lagasetningarinnar og þeim niðurstöðum skilað til Alþingis sem skýrslu í árslok 2023.
Á vorþingi 2024 voru gerðar breytingar á lögunum sem tóku gildi 22. júní 2024, þar sem lögfest var heimild námsmanna til þess að færa sig einu sinni á milli námsbrauta, án þess að missa rétt til námsstyrks, auk þess sem ábyrgðarmannakerfi námslána var fellt úr gildi. Þá voru lögfest ákvæði um að Menntasjóði væri eingöngu heimilt að fjármagna útlán sjóðsins í gegnum Endurlán ríkissjóðs, en frá gildistöku laganna hafa útlán sjóðsins meðal annars verið fjármögnuð af eigin fé eldra lánasafns sjóðsins, þ.e. Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).
Í kjölfar gildistöku framangreindra breytinga hófst vinna við heildarendurskoðun laganna á grundvelli greiningarvinnu og niðurstöðu vinnustofu sem haldin var með fulltrúum námsmanna, stjórn og starfsmönnum Menntasjóðs, auk fulltrúa frá BHM, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Í þeirri vinnu hafa frekari vankantar á gildandi lögum komið í ljós auk ábendinga um framkvæmd laganna, sem æskilegt væri að breyta. Frumvarpinu er ætlað að mæta því, að því marki sem hægt er miðað við þann skamma tíma sem liðinn er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum og vegna stöðu ríkisfjármála, sem ekki er hægt að horfa fram hjá.
Helstu efnisþættir frumvarpsins eru þessir:
1. Styrkjakerfi námslána er breytt á þann veg að í stað 30% niðurfellingar höfuðstóls námslána í lok náms geta þeir sem uppfylla kröfur um námsframvindu fengið 20% niðurfellingu við lok hverrar námsannar og 10% við námslok.
2. Vaxtaviðmiðum námslána er breytt á þann veg að byggt er á þriggja ára meðaltali vaxta í stað eins mánaðar. Þetta þýðir að áhrif stýrivaxtaákvarðana Seðlabanka Íslands á vaxtabyrði námslána minnka frá því sem verið hefur.
3. Viðmið í lið tvö standa jafnframt þeim til boða sem þegar hafa tekið lán.
4. Þá er að finna heimild fyrir lánþega sem skulda H-lán eftir stofnun Menntasjóðs og önnur eldri lán í tíð LÍN til að greiða fyrst af H-láni og fresta greiðslu eldri lána þar til H-lánið hefur verið greitt upp.
5. Önnur ákvæði frumvarpsins varða framkvæmd laganna.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa stefnumörkunar og alþjóðasamskipta
hvin@hvin.is