Til umsagnar
20.–27.2.2025
Í vinnslu
28.2.–25.3.2025
Samráði lokið
26.3.2025
Mál nr. S-42/2025
Birt: 20.2.2025
Fjöldi umsagna: 3
Áform um lagasetningu
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Tvær umsagnir bárust, annars vegar frá BSRB og hins vegar sameiginleg umsögn frá Viðskiptaráði, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Við frumvarpsgerð var horft til umsagna og reynt að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram.
Áformað er að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (stöðugleikaregla o.fl.).
Að undanförnu hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að endurskoðun á tölusettu fjármálareglum laganna og samspili þeirra í ljósi reynslunnar sem fengist hefur af þeim frá því þær voru festar í lög fyrir nærri tíu árum. Í framhaldi af þeirri greiningu, sem m.a. hefur verið kynnt með sérstakri umræðuskýrslu á Alþingi, er áformað að leggja fram frumvarp til breytingar á fjármálareglum laga um opinber fjármál. Áformin fela í sér tillögur um að tekin verði upp ný svonefnd stöðugleikaregla fyrir stjórn ríkisfjármálanna. Slík regla miðar að því að hamla gegn því að ríkisfjármálin ýti undir efnahagslegt ójafnvægi, hvort sem er þenslu eða samdrátt. Stöðugleikaregla felur í sér að hún setur ófjármögnuðum útgjaldavexti ríkissjóðs skorður, til að mynda þegar uppsveifla fleytir tímabundið meiri tekjum í ríkissjóð, og á hinn bóginn að þegar tímabundin niðursveifla eða stöðnun verður í hagkerfinu þarf ekki að samtímis að draga saman seglin í ríkisútgjöldum í sama mæli. Slík fjármálaregla stuðlar í senn að sjálfbærni og stöðugleika og leyfir meiri sveigjanleika í aðlögun heildarafkomu ríkissjóðs að langtímamarkmiðum.
Gert er ráð fyrir að stöðugleikaregla verði útfærð þannig að undirliggjandi útgjöld A1-hluta ríkissjóðs megi vaxa um að hámarki 2,0% að raunvirði á ári. Hámarkið byggist á mati Hagstofu Íslands á horfum um vöxt í framleiðslugetu þjóðarbúsins að jafnaði til lengri tíma litið. Því næst er leiðrétt fyrir því að verðlag ríkisútgjalda hækkar að jafnaði nokkuð hraðar en verðlag landsframleiðslunnar, m.a. vegna þess að launakostnaður og gjöld tengd launakostnaði vega fremur þungt í ríkisútgjöldum. Þá fæst að ríkisútgjöld geta vaxið um u.þ.b. 2,0% á ári, að raunvirði, svo að útgjöldin haldist óbreytt í hlutfalli við VLF. Raunvöxt útgjalda umfram 2,0% þarf að fjármagna með samsvarandi ráðstöfunum til tekjuöflunar samkvæmt reglunni. Á sama hátt felur reglan í sér að ráðstafanir sem ætlað er að lækka tekjuöflun þarf að fjármagna með því að draga úr útgjaldavexti niður fyrir hámarkið í sama mæli.
Ástæða er til að leggja áherslu á það í þessu sambandi að um er að ræða reglu um hámark útgjaldavaxtar. Efnahagsaðstæður og staða ríkisfjármála kunna að vera með þeim hætti að tilefni geti verið talið til þess að stjórnvöld setji sér þrengri skorður um útgjaldaþróun í því ljósi.
Undirliggjandi ríkisútgjöld verði skilgreind sem ríkisútgjöld A1-hluta ríkissjóðs að undanskildum fjárfestingum, vaxta¬gjöldum, atvinnuleysisbótum, lífeyrisskuldbindingum, afskriftum skattkrafna, öðrum töpuðum kröfum, tjónabótum, útgjöldum vegna meiri háttar náttúruhamfara, ríkisábyrgðum og framlögum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið endurskoði ef tilefni er til þess viðmið fyrir hámarki útgjaldavaxtar á fimm ára fresti, með hliðsjón af opinberri hagspá.
Rétt er að benda á að ekki er áformað að stöðugleikareglan eigi við um fjármál sveitarfélaga. Aðrar fjármálareglur gilda um fjármál þeirra samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.
Þá er áformað að leggja til að samhliða innleiðingu á stöðugleikareglunni verði afkomuregla laga um opinber fjármál aflögð. Einnig er fyrirhugað að leggja til að horfið verði frá skuldalækkunarregla laganna í núverandi mynd. Engin áform eru hins vegar um að gerðar verði breytingar á skuldareglu laga um opinber fjármál heldur verði áfram stefnt að því að skuldahlutfallið verði að hámarki 30% af VLF. Til þess að stjórnvöld þurfi eftir sem áður að varða skýra leið í átt að því markmiði er áformað að bætt verði inn í lögin kröfum um inntak og framsetningu á fyrirætlunum um skuldaþróun í fjármálastefnu, hvort og hvernig settu markmiði laganna verði náð.
Vegna áformaðra breytinga á fjármálareglunum er nauðsynlegt að gera breytingar á viðfangsefni fjármálaráðs til samræmis við þær breytingar sem áformaðar eru og þá einnig í því skyni að tryggja óvilhalla rýni, eftirlit og gagnsæi um beitingu nýju stöðugleikareglunnar um útgjaldavöxt og samspil hennar við skuldaregluna og grunngildi laganna. Áformað er að bætt verði ákvæði í lögin um að hlutverk ráðsins verði einnig að rýna forsendur fyrir vaxtarhámarki útgjaldareglunnar, beitingu hennar sem og forsendur og áhrif tekjuráðstafana sem snúa að svigrúmi til útgjaldavaxtar. Auk þessara breytinga er áformað að fjármálaráð taki að sér nýjan starfsþátt sem feli í sér að vakta og greina þróun framleiðni í hagkerfinu. Tilefnið fyrir því er að tryggja framgang áforma sem hafa verið til umræðu milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með hagkvæmum hætti samhliða því að breikka og styrkja starfsemi ráðsins.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Yfirstjórn
fjr@fjr.is