Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.2.–2.3.2025

2

Í vinnslu

  • 3.3.2025–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Skrá áskrift að máli

Mál nr. S-33/2025

Birt: 18.2.2025

Fjöldi umsagna: 4

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 (rekstur líkhúsa)

Málsefni

Lögð er til breyting á lögum til að bregðast við alvarlegri rekstrarstöðu á mikilvægum innviðum svo kirkjugörðum verði gert heimilt að innheimta gjald til að standa undir kostnaði af rekstri líkhúsa.

Nánari upplýsingar

Með lagabreytingunni er leitast við að bregðast við alvarlegri rekstrarstöðu á mikilvægum samfélagslegum innviðum sem skapast hefur hjá þeim kirkjugörðum sem reka líkhús hér á landi.

Samfélagslegir hagsmunir af rekstri líkhúsa eru miklir þar sem um gríðarlega mikilvæga innviði er að ræða. Líkhús Kirkjugarða Reykjavíkur, í Fossvogi, tók við 68% allra látinna einstaklinga á landinu árið 2024. Vegna mjög erfiðs rekstrarumhverfis er sú staða nú komin upp að Kirkjugarðar Reykjavíkur munu ekki geta haldið áfram rekstri líkhússins án fjármagns til rekstursins. Verði ekki brugðist við stöðunni er hætt við að stefni í óefni og kirkjugarðar hætti alfarið rekstri líkhúsa. Er því nauðsynlegt að búa svo um í lagaumgjörð kirkjugarðanna núna að þeim verði heimilt að innheimta gjald til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af rekstri líkhúsa.

Kirkjugarðar fá fjármagn úr ríkissjóði á grundvelli samkomulags sem gert var árið 2005. Samkomulagið byggir á þrennskonar viðmiðunum þegar reiknað er framlag úr ríkissjóði til starfsemi kirkjugarða. Rekstur líkhúsa er ekki þar á meðal.

Verður ekki séð að önnur leið sé fær til þess að leysa með skjótum hætti þann vanda sem upp er kominn varðandi rekstur líkhúsa kirkjugarðanna en við endurskoðun laganna og samkomulagsins verður hægt að skoða aðrar leiðir sem kunna að þykja ákjósanlegri þegar til framtíðar er litið.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 er kirkjugörðum heimilt að láta reisa kapellu og líkhús í eða við kirkjugarð á kostnað hans. Um er að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu.

Síðustu áratugi hafa nokkrir kirkjugarðar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins komið sér upp líkhúsi. Haustið 2024 ráku þó einungis tveir kirkjugarðar á landinu fullbúin líkhús, þ.e. Kirkjugarðar Reykjavíkur og Kirkjugarðar Akureyrar.

Innsendar umsagnir (4)

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is