Til umsagnar
14.2.–5.3.2025
Í vinnslu
6.3.2025–
Samráði lokið
Mál nr. S-32/2025
Birt: 14.2.2025
Fjöldi umsagna: 38
Drög að frumvarpi til laga
Innviðaráðuneytið
Sveitarfélög og byggðamál
Markmiðið er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Í janúar 2023 skipaði innviðaráðherra starfshóp um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og var markmið starfshópsins að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og tryggja að sjóðurinn fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Frumvarp þetta var samið á grundvelli tillagna starfshópsins, sem m.a. fólu í sér að nýtt líkan Jöfnunarsjóðs sem leysir núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag.
Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar frá 10. mars 2023 til 30. mars 2023 og var lagt fyrir 154. löggjafarþing Alþingis 2023-2024 en náði ekki fram að ganga. Ráðherra fól ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í janúar sl. að ganga frá endanlegum tillögum um breytingar á starfsemi og regluverki sjóðsins og er nú áformað er að leggja frumvarpið aftur fram með nokkrum breytingum.
Sérstaklega var horft til og reynt að koma til móts við þær athugasemdir sem bárust frá sveitarfélögum og öðrum aðilum þegar drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í mars 2023. Lögð er nú aukin áhersla á að líkanið styðji við sveitarfélög sem hafa stór þjónustusóknarsvæði og fjölbreytt byggðamynstur og hafa af þeim sökum miklar og flóknar útgjaldaþarfir. Þá er stefnt að því að dregið sé úr neikvæðum hvötum til sameininga í regluverki sjóðsins í stað þess að framlög sjóðsins hafi innbyggða hvata til sameininga, t.d. með því að reyna að koma í veg fyrir að framlög lækki verulega til nýs sameinaðs sveitarfélags miðað við þau framlög sem sveitarfélögin sem sameinuðust hlutu áður hvert í sínu lagi. Auk þess var reynt að mæta gagnrýni sveitarfélaga um að fasteignaskattsframlag sjóðsins yrði fellt niður. Gagnrýnin beindist m.a. að því að framlaginu hafi verið ætlað að jafna tekjutap sveitarfélaga á landsbyggðinni sem stafaði af kerfisbreytingu og þar sem áhrifa breytinganna gæti enn sé ekki ástæða til að fella niður framlagið.
Í samræmi við framangreindar áherslubreytingar hafa m.a. verið gerðar þær breytingar á hinu nýja líkani að bætt var við útgjaldajöfnunarbreytu sem tekur mið af lágu fasteignamati í sveitarfélagi. Þá er fallið frá sértæku byggðaframlagi, þar sem nýr fasteignamatsstuðull styður við viðkvæmar byggðir landsins með almennum hætti. Enn fremur eru lagðar til aðrar breytingar á líkaninu sem hafa m.a. það markmið að koma í veg fyrir að líkanið hamli sameiningu mjög stórra sveitarfélaga og að líkanið styðji betur við sveitarfélög með stór þjónustusvæði og fjölbreytt byggðamynstur.
Nánar er farið yfir breytingarnar í kafla 3.10 í frumvarpsdrögunum.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála
irn@irn.is