Til umsagnar
22.11.2024–17.1.2025
Í vinnslu
Samráði lokið
Mál nr. S-232/2024
Birt: 22.11.2024
Fjöldi umsagna: 1
Drög að frumvarpi til laga
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Umhverfismál
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir drög að frumvarpi um einföldun og skilvirkari leyfisveitingar.
Frumvarpið er hluti af átaksverkefni í leyfisveitingum og miðar að því að einfalda, samræma og stytta afgreiðslutíma leyfisumsókna í umhverfis- og orkumálum og tryggja um leið gæði og gagnsæi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setti átaksverkefnið af stað í kjölfar vinnu við sameiningar stofnana á málefnasviði ráðuneytisins. Verkefnið snýst um skilvirkari leyfisveitingar í umhverfis- og orkumálum, endurskoðun regluverksins snýst um endurhönnun ferla, stafrænar lausnir og breytingar á verklagi. Verkefnið er unnið í samvinnu við Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
Frumvarpið er fyrsti áfangi í endurskoðun regluverksins. Við endurskoðunina er lögð áhersla á að samþætta og samræma leyfisveitingar og tengdar ákvarðanir til að stytta heildartíma málsmeðferðar og að fækka kæruleiðum. Einnig að röð ákvarðana og tímaviðmið séu skýrari þannig að regluverk styðji betur skilvirka, vandaða og gagnsæja stjórnsýslu.
Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:
• Stigin verði skref í þá átt að gera Umhverfis- og orkustofnun að einum viðkomustað leyfisveitinga í stað þess að leita þurfi til nokkurra stjórnvalda. M.a. er lagt til að leyfi vegna virkjanaframkvæmda verði eingöngu hjá Umhverfis- og orkustofnun.
• Umhverfis- og orkustofnun verði heimilað að forgangsraða málum í þágu markmiða um orkuskipti og kolefnishlutleysi.
• Víðtækari heimild verði til að gera tiltekna starfsemi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir skráningaskylda í stað starfsleyfisskyldu.
• Leyfi samkvæmt raforkulögum og lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu falli ekki brott sjálfkrafa hafi ekki verið samið um endurgjald eða óskað eftir eignarnámi innan tiltekins tíma.
• Ferli vegna breytinga á vatnshloti verði einfaldað með því að tengja það umhverfismati framkvæmdar og sameina málsmeðferð vegna heimildar til breytingar á vatnshloti og leyfi Umhverfis- og orkustofnunar til framkvæmda.
Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 17. janúar næstkomandi.
Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast.
Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar
urn@urn.is