Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 15.11.–6.12.2024

2

Í vinnslu

  • 7.12.2024–

Samráði lokið

Mál nr. S-227/2024

Birt: 15.11.2024

Fjöldi umsagna: 23

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Reglugerð um iðgjald vegna sjúklingatryggingar

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til umsagnar drög að reglugerð um iðgjald vegna sjúklingatryggingar.

Nánari upplýsingar

Ný heildarlög nr. 47/2024, um sjúklingatryggingu, taka gildi þann 1. janúar 2025 og leysa af hólmi eldri lög, sama heitis nr. 111/2000.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa sjálfstætt starfandi rekstraraðilar, þ.e. heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir, sem reknar eru af öðrum en ríki eða sveitarfélögum, svo og heilbrigðisstarfsmenn sem starfa sjálfstætt, keypt vátryggingu vegna sjúklingatryggingar hjá vátryggingafélögum landsins.

Með nýju lögunum munu ofangreindir aðilar, sem hér verður vísað til sem rekstraraðilar, frá 1. janúar 2025, árlega greiða iðgjald til sjúkratryggingastofnunarinnar (SÍ) í stað vátryggingafélaganna, sbr. 9. gr. laganna. SÍ mun frá gildistöku laganna annast sjúklingatryggingu án tillits til þess hvar sjúklingur naut heilbrigðisþjónustu, en SÍ hefur skv. núgildandi lögum annast sjúklingatryggingu vegna rekstraraðila í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Með lögunum er staða sjúklinga því samræmd.

Í 15. gr. laganna kemur fram að fjárhæð iðgjaldsins skuli taka mið af fjölda mála og áætluðum kostnaði við bótagreiðslur og afgreiðslu mála. Þá skuli hún einnig miðast við áhættustuðul og umfang heilbrigðisþjónustu. Meðfylgjandi eru drög að reglugerð um iðgjald vegna sjúklingatryggingar í samræmi við 15. gr. laganna en reglugerðin er unnin í samstarfi við SÍ sem tekur við verkefninu um áramót. Gjaldskrá með fjárhæðum iðgjalds er fylgiskjal með reglugerðinni, en jafnframt er gert grein fyrir forsendum hennar í sérstöku upplýsingaskjali sem birt er samhliða drögum að reglugerðinni.

Ráðuneytið gerir ráð fyrir að endurskoðun reglugerðarinnar með tilliti til reynslu geti átt sér stað þremur árum frá gildistöku, en þá verði tjónatilkynningar orðnar sambærilegar því sem búast megi við.

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um málsmeðferð þegar rekstri er hætt eða þegar greiðslufall verður, svo og um upplýsingaskyldu rekstraraðila og endurkröfurétt SÍ vegna tjóna sem ótryggður rekstraraðili veldur. Þá eru tvö bráðabirgðaákvæði sem kveða á um meiri liðlegheit en venjulega vegna yfirfærslunnar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. núgildandi laga nr. 111/2000 eiga bótaskyldir aðilar skv. 9. gr. laganna, þ.e. rekstraraðilar sem ekki eru reknir af ríki eða sveitarfélögum, að vera tryggðir með vátryggingu (sjúklingatryggingu) hjá vátryggingafélagi. Sú skylda, til að tryggja sig gegn tjónum sem verða á gildistíma núgildandi laga, helst því fram yfir gildistöku nýju laganna.

Skilmálar tryggingafélaganna byggjast á svokölluðum „claims made“ eða „krafa sett fram“ grunni. Það þýðir að trygging er tekin fyrir tiltekið tímabil og gildir um tjón sem eru tilkynnt á gildistíma tryggingarinnar sama hvenær tjón varð. Með claims made skilmálum er hægt að bjóða lægra verð hverju sinni en þegar rekstri lýkur verður rekstraraðili að taka svokallaða sólarlagstryggingu, sem er ein trygging sem dekkar tjón sem rekstraraðili kann að hafa valdið í rekstri sínum áður en rekstri lýkur, en eru tilkynnt eftir að hann hættir störfum. Slík trygging er iðulega tiltölulega lág, enda á hún aðeins við um tjón sem hafa orðið í fortíð, en gildir engu að síður um lengri tíma en venjulegar tryggingar. Þar sem trygging tekur aðeins til tjóna sem eru tilkynnt á gildistíma hennar er sólarlagstrygging ekki tvígreiðsla.

Samkvæmt reglugerð um iðgjald vegna sjúklingatryggingar, sem stefnt er á að taki gildi 1. janúar 2025, verður byggt á svokölluðum "claims occurance" eða „krafa stofnast“ gunni. Það þýðir að tryggt er til framtíðar vegna tjóna sem gerast á gildistíma tryggingarinnar. Þegar starfsmaður hættir rekstri eftir gildistöku nýju laganna mun rekstraraðili ekki þurfa að greiða sólarlagstryggingu til SÍ. Er það í samræmi við gildistökuákvæði nýju laganna sem gilda aðeins um tjón sem verða frá 1. janúar 2025. Tjón sem verða fyrir þann tíma ber að tryggja með sólarlagstryggingu hjá tryggingafélögunum.

Af framansögðu greindu verður þessi breyting til þess að rekstraraðilar munu árið 2025 bæði þurfa að greiða sólarlagstryggingu til tryggingafélaganna auk iðgjalds vegna ársins 2025 til SÍ vegna nýju laganna þar sem sólarlagstryggingin er færð fram vegna breytts tryggingagrunns við gildistöku nýju laganna. Er rekstraraðilum bent á að hafa samband við tryggingafélagið sitt hvað skilmála, greiðsludreifingu og upphæð sólarlagstryggingu varðar. Að sama skapi verður rekstraraðilum sem ná tiltekinni greiðsluupphæð vegna iðgjalda, einnig heimilt að greiðsludreifa iðgjaldagreiðslu til SÍ vegna ársins 2025, í fleiri greiðslur en ella.

Gert er ráð fyrir að reglugerðin öðlist gildi 1. janúar 2025.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

hrn@hrn.is